Nánar um teymisvinnu

Móttökunni verður skipt upp í tvö teymi, blátt og rautt og verða teymin hjúkrunarstýrð.  Þegar hringt er í móttöku HSU 432-2000 fær viðkomandi samdægurs símatíma hjá hjúkrunarfræðingi í sínu teymi. Hjúkrunarfræðingur hringir síðan samdægurs eða í síðasta lagi næsta morgun til baka og fær upplýsingar um erindið. Með þessu móti er hægt að forgangsraða vandamálum sem er afar mikilvægt en einnig gefst kostur á því að leysa minna aðkallandi vandamál eða spurningar með ráðgjöf ásamt því að hjúkrunarfræðingar verða einnig með móttöku. Þeir sem þurfa að hitta lækni fá tíma sem hjúkrunarfræðingur bókar en slíkir tímir geta verið samdægurs eða seinna allt eftir því um hvað málið snýst. Þannig gefst líka tækifæri til þess að undirbúa komuna, t.d. með því að panta rannsóknir sem eru þá tilbúnar við komu til læknis. 

Með þessum breytingum nýtast starfskraftar lækna og hjúkrunarfræðinga mun betur og notendur þjónustunnar fá strax afgreiðslu á sínum erindum, ásamt því að undirbúningur verður betri og afgreiðsla á rannsóknarniðurstöðum verður skilvirkari.

 

Svona virkar nýja fyrirkomulagið:

  1. Skjólstæðingur hringir inn og óskar eftir tíma hjá lækni.
  2. Hjúkrunarfræðingur hringir í skjólstæðing og leysir úr vandanum í símtalinu.
  3. Hjúkrunarfræðingur kallar á skjólstæðing inn á stöð og leysir þar úr vandanum.
  4. Hjúkrunarfræðingur kallar á skjólstæðing inn á stöð til að undirbúa hann fyrir læknatíma.
  5. Hjúkrunarfræðingur gefur skjólstæðingi símatíma eða viðtalstíma hjá lækni. Hversu skjótt tíminn fæst fer eftir alvarleika vandans.