Astmamóttaka

 

Móttaka fyrir astma- og lungnasjúklinga

 

Móttakan er ætluð langveikum einstaklingum með astma og aðra lungnasjúkdóma á þjónustusvæði heilsugæslunnar á Selfossi. Móttakan er opin á þriðjudögum frá klukkan 15:00 til 16:00. Thelma Dröfn Ásmundsdóttir hjúkrunarfræðingur sinnir móttökunni.

Meginmarkmið hjúkrunarþjónustunnar eru að viðhalda og auka lífsgæði og draga úr eða koma í veg fyrir að sjúklingum versni og þar með einnig að þá þurfi að leggja inn á sjúkrahús, auk þess að tryggja greitt aðgengi að viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Með greiðum aðgangi er hér átt við að það sé reglulegt eftirlit á vegum hjúkrunarþjónustunnar, af hjúkrunarfræðing sem sérhæfir sig í þeirra heilsuvanda, auðvelt aðgengi að hjúkrunarfræðingi í síma, aðstoð við ef breytinga er þörf tengt þjónustunni eða hjálpartækjum.

 

Fræðsla til sjúklings og fjölskyldu hans er mikilvæg. Fræðslan er samtvinnuð í samræðurnar og í samræmi við hvað helst brennur á hverju sinni. Hjá sjúklingum með astma eða langvinna lungnateppu má búast við fræðsluþörfum tengdum, lyfjum og lyfjanotkun, öndun, svefn, næringu og hreyfingu. Andþyngsli eða mæði eru aðaleinkenni langvinnrar lungnateppu og í kjölfarið má búast við ýmsum fleiri einkennum. Má þar nefna næringarskort, kvíða, þunglyndi, einmannaleika, þreytu, félagslega einangrun, úthaldsleysi og skerðingu á hreyfigetu. Mikilvægt er að þessir einstaklingar læri að lesa í sinn eigin líkama, þekkja einkenni, meta alvarleika þeirra og bregðist við á viðeigandi hátt.

 

Einnig er sérhæfð þjónusta fyrir foreldra með börn með astma.

Astmaeinkenni geta komið í köstum jafnvel að næturlagi. Einkennin geta verið misjöfn frá degi til dags, einkenni astmans geta jafnvel horfið eða hörfað um skeið en skotið síðan upp kollinum vegna einhverra áreita. Sjúklingurinn verður því að þekkja sjúkdóminn til hlítar og læra hvenær og hvernig á að bregðast við hverju sinni. Hann þarf að læra hvaða þættir valda auknum einkennum, hvað eigi að forðast og hvenær þurfi að leita læknis. Val á réttri astmameðferð byggist á því að sjúklingur og læknir hafi innsæi í sjúkdóminn og finni lágmarks lyfjameðferð sem heldur sjúklingnum einkennalausum.

 

Helstu einkenni astma eru

  • Hósti (66%)
  • Hvæs við öndun (56%)
  • Mæði   (46%)
  • Þrengslatilfinning í brjóstkassa (24%)
  • Herpingur /inndráttur (24%)