Starfssemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands 2011

Skv. áætlun um starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu) á árinu 2011 verða talverðar breytingar á starfsemi stofnunarinnar. Fjárveiting til stofnunarinnar í fjárlögum 2011 var lækkuð um 113 m.kr. Heildarlækkun fjárveitinga til stofnunarinnar árin 2009 – 2011 nemur því samtals um 21 %.

Við gerð rekstraráætlunar stofnunarinnar var haft að leiðarljósi hlutverk hennar skv. lögum um heilbrigðisþjónustu og útfærsla á því hlutverki í fjárlögum 2011.


Áætlunin mótast af því, að sem minnst skerðing verði á þjónustu stofnunarinnar og hægt verði að veita nauðsynlegustu bráðaþjónustu. Ennfremur að reynt verði koma í veg fyrir uppsagnir starfsfólks svo sem frekast er kostur. Til viðbótar við mikla útgjaldalækkun síðustu tveggja ára er ekki hægt að komast hjá, að útgjaldalækkun þessa árs leiði til breytinga á þjónustu og uppsagna starfsfólks.


Í fyrsta lagi er gengið út frá, að stofnunin veiti áfram grunnheilbrigðisþjónustu, sem felur m.a. í sér heilsugæslu, hjúkrun aldraðra, almenna sjúkrahúsþjónustu, almennar lyflækningar, hjúkrun, slysa- og bráðaþjónustu, fæðingarþjónustu og endurhæfingu. Vegna framkvæmda við endurbætur á húsnæði sjúkrahússins er gert ráð fyrir röskun á starfsemi, sem leiðir til þess, að reksturskostnaður lækkar tímabundið


Fæðingardeild HSu tók við skipulagi og þjónustu mæðraverndar á Selfossi og á heilsugæslustöðvunum í Hveragerði, Þorlákshöfn, Laugarási og Rangárþingi frá síðustu áramótum.


Í öðru lagi verður lögð áhersla á að styrkja slysa- og bráðaþjónustu og sálfélagslega þjónustu á svæðinu í samræmi við aukna fjárveitingu til þess skv. fjárlögum. Vaktþjónusta heilsugæslulækna í Árnes- og Rangárvallasýslum verður samþætt betur í þeim tilgangi að styrkja bráðaþjónustu á svæðinu, skapa betri vinnuskilyrði og tryggja betri heilsugæsluþjónustu.


Í þriðja lagi verður núverandi göngu- og dagdeildarþjónustu haldið áfram. Lögð verður áhersla á, að auka ýmsa sérfræðiþjónustu á stofnuninni og draga úr þörf á að sækja slíka þjónustu á sérfræðistofur á höfuðborgarsvæðinu.


Í fjórða lagi verða gerðar ýmsar ráðstafanir til að draga úr útgjöldum á flestum deildum stofnunarinnar, m.a. með hliðsjón af öðrum breytingum, en einnig til að mæta kröfu um lækkun útgjalda í samræmi við fjárlög.


Í fimmta lagi verði þegar hafist handa við að endurhanna eldra húsnæði stofnunarinnar á Selfossi þannig að endurbætur geti hafist sem fyrst. Fjármagn er til staðar til að hefja þessar framkvæmdir og skapa stofnuninni framtíðaraðstöðu til að veita sem besta sjúkrahús- og sérfræðiþjónustu.


Afleiðingar framangreindra breytinga verða m.a. þær, að stöðugildum við stofnunina fækkar um tæplega 20. Fækkunin kemur fram í því, að ekki hefur verið endurráðið í ákveðin stöðugildi, sem hafa losnað, starfshlutföll nokkurra starfsmanna hafa verið lækkuð og í örfáum tilfellum hefur verið um uppsagnir að ræða.


Auk framangreindra breytinga verða gerðar ákveðnar breytingar á stjórnskipulagi í þeim tilgangi að boðleiðir verði einfaldari og stjórnun skilvirkari.