Starfsmenn á Foss- og Ljósheimum í sjúkraliðanám

Á hjúkrunardeildunum Foss- og Ljósheimum hafa 4 ungar konur ákveðið að hefja sjúkraliðanám nú á haustönn 2019 við Fjölbrautarskóla Suðurlands.  Allar hafa þær starfað á Foss- og Ljósheimum og fundið að þetta starfsumhverfi ætti vel við þær, að þær séu góðar í mannlegum samskiptum og geti sýnt öðrum hlýju, umhyggju og nærgætni. Það er ánægjulegt þegar ungt fólk finnur sinn farveg og vill hefja nám í fagi sem veitir nokkuð öruggt starf að námi loknu, er að auki gefandi og skemmtilegt og getur opnað aðrar leiðir til áframhaldandi heilbrigðisnáms síðar.  Vert er að benda á að á landsvísu vantar sjúkraliða til starfa og því ætti að vera auðvelt að finna starf að námi loknu.

Tilgangur námsins er undirbúningur undir krefjandi störf við hjúkrun, endurhæfingu og forvarnir bæði á heilbrigðisstofnunum og á heimilum fólks þar sem reynir mikið á samskiptafærni og siðferðisvitund starfsmanna. Í náminu er rík áhersla lögð á samvinnu við starfsfólk og stjórnendur í heilbrigðisþjónustu. Sjúkraliðanám getur verið góður grunnur fyrir frekara nám í heilbrigðisvísindum. Sjúkraliðanám er viðurkennt starfsnám og að því loknu getur nemandi sótt um löggildingu starfsheitis til Embættis landlæknis og öðlast þá réttindi til að starfa sem sjúkraliði á Íslandi. Starfsheitið sjúkraliði er lögverndað.

Starfsmennirnir sem eru að hefja sjúkraliðanám eru: Jónína Sigurjónsdóttir, Karen Hauksdóttir, Katrín Alexandra Helgudóttir og Sól Arnþórsdóttir.

Við óskum þeim öllum velfarnaðar í náminu.