Starfsemi í fjöldahjálparstöð að ljúka

Allir þeir sem veiktust af nóroveiru á útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni hafa nú verið útskrifaðir úr fjöldahjálparstöðinni í Hveragerði og henni lokað. Þar er nú unnið að sótthreinsun og standa vonir til að þeirri vinnu ljúki eigi síðar en á morgun mánudag. Fulltrúar viðbragðsaðila funduðu í Hveragerði kl. 10:00 og munu nú taka saman greinargerð um aðkomu síns fólks og aðgerðir sem farið verður yfir á fundi í byrjun september.  
Lögreglan á Suðurlandi og umdæmislæknir sóttvarna í héraði vilja þakka viðbragðsaðilum öllum frábæra og óeigingjarna vinnu við þetta stóra verkefni.