Starfsemi hand-og lyflæknisdeildar Hsu

Í ársbyrjun 2011 urðu breytingar á starfsemi Hsu vegna niðurskurðar.  Á  deildinni var hagrætt verulega,  sjúkrarúmum fækkað  virka daga og eru enn færri um helgar. Deildin er opin allan sólarhringinn, 18 rúm opin virka daga og 13 rúm um helgar og hátíðisdaga.
Á deildinni fer fram almenn og bráða þjónusta þar sem fólk leggst inn til lengri eða skemmri tíma.  Aðgerðir eru á skurðstofu stofnunarinnar 3 daga í viku. Þá er rekin öflug speglunardeild þar sem speglað er tvo daga í viku. Handlæknishluti deildarinnar sinnir þeim sjúklingum sem þurfa að leggjast inn eftir þessar aðgerðir. Stór þáttur í þjónustu sjúkradeildar er almenn lyflæknisþjónusta ýmis konar, eins og lungna-og hjartasjúkdómar, sýkingar af ýmsum toga, bráðar öldrunarlækningar o.fl, ásamt líknandi og lífsloka meðferð.

Á deildinni er vaktþjónusta sérfræðings allan sólarhringinn og til staðar er sérfræðiþekking  í almennum skurð- og lyflækningum, hjartalækningum og meltingarfærasjúkdómum. Þá starfa á deildinni svæfingalæknir, 18 hjúkrunarfræðingar í 13 stöðugildum og 15 sjúkraliðar í 9.0 stöðugildum. Einn sjúkraþjálfari starfar á deildinni í 60% stöðu.

 Á árinu 2010 voru 780 innlagnir á lyflæknissvið og 224 skurðsvið. Þá eru ótaldir þeir sjúklingar sem lögðust inn á dagdeild. Ljóst er að vel á annað þúsund sjúklingar koma á deildina til lengri eða skemmri tíma.

Á dagdeild eru 6 rúm, þar leggjast inn sjúklingar sem fara í stuttar aðgerðir og fara oftast heim samdægurs, en komi  sjúklingar langt að þá eru þeir yfir nótt,  t.d háls-og nefkirtlaaðgerðir, kviðslitsaðgerðir, æðahnútaaðgerðir og gallaðgerðir. Á dagdeild kemur einnig fólk sem þarf lyfjagjafir í æð vegna ýmiskonar sýkinga, krabbameins eða meltingafærasjúkdóma. Dagdeild sinnir einnig fólki sem þarfnast blóðgjafar, þar sem beiðni um slíkt kemur frá heilsugæslustöðvum eða Landspítala.

Töluvert er um að sjúklingar sem hafa farið í aðgerð á LHS leggist inn á deildina til að jafna sig, fá verkjastillingu og endurhæfingu. Flestir koma eftir liðskiptaaðgerðir, en einnig fólk sem hefur farið í stórar aðgerðir á meltingarfærum, hjartaaðgerðir, einstaklingar sem hafa slasast alvarlega,  svo eitthvað sé nefnt. Þessir sjúklingar eru oft að koma á öðrum degi efir aðgerð og þurfa umtalsverða hjúkrun og virka læknismeðferð.

Góð samvinna er við heilsugæslustöðvar héraðsins og má þar sérstaklega nefna heimahjúkrun sem sinnir öldruðum í heimahúsum. Þegar illa gengur heima leggjast þessir einstaklingar inn til þess að fara yfir eða breyta lyfjum, fá næringu og/eða lyf í æð, hvíldarinnlagnir o.fl., allt gert til þess að hjálpa fólki til að vera sem lengst heima. Stór hópur þessara einstaklinga þurfa að leggjast inn á deildina reglulega og má ætla að ef stuðningur deildarinnar við þessa einstaklinga  væri ekki til staðar gætu þeir ekki búið heima.

Á deildinni eru einnig einstaklingar sem ekki geta lengur búið heima, vegna veikinda og minnkandi færni, heimilismenn á  dvalarheimulum þar sem hjúkrun er ekki næg, sjúklingar sem hafa fengið heilablóðfall og lamast, og eru að bíða eftir varanlegri vistun á hjúkrunarheimilum. Þessir einstaklingar liggja á deildinni oft mánuðum saman því engin önnur úrræði eru til staðar.

Líknandi meðferð er stór hluti starfsemi deildarinnar þar sem langveikir, með ýmsa sjúkdóma, leggjast inn mjög oft en geta verið heima þess á milli. Haldið hefur verið vel utan um þessa einstaklinga og þeim gert það kleift að leggjast inn um leið og eitthvað bregður út af . Þetta aðgengi að deildinni hefur reynst sjúklingum og aðstandendum þeirra ómetanlegt.

Dauðvona sjúklingar þiggja lífsloka meðferð á deildinni, krabbameinssjúklingar og aðrir oft aldraðir einstaklingar liggja sína hinstu legu í heimabyggð, í nálægð við ættingja og vini.

Má sérstaklega benda á umstang og aukakostnað aðstandenda ef sú þjónusta væri ekki í boði hér.  Á Suðurlandi er ekki í boði heimahjúkrun allan sólarhringinn á heilsugæslu-stöðvum vítt og breitt um héraðið, sem gerir möguleika á sólarhringslegu enn nauðsynlegri.

Um áramótin 2010/2011 var slysa-og bráðamóttaka sameinuð hand-og lyflæknisdeildinni. Með þessu var þjónusta við íbúa aukin og aðgengi að bráðaþjónustu gert betra. Bráðamóttakan er mönnuð hjúkrunarfræðingi og lækni allan sólarhringinn. Starfsemi bráðamóttökunnar er fjölbreytt, móttaka slasaðra og fólks sem lendir í bráðum veikindum, lyfjagjafir í æð, skipt á sárum o.fl., auk símaráðgjafar sem er stór hluti  starfsemi deildarinnar.  Á bráðamóttökunni eru tvö rúm til að hafa sjúklinga til eftirlits  í allt að einn sólarhring. Þá nýtir bráðamóttakan sér legupláss á hand-og lyflæknisdeildinni fyrir sjúklinga sem hægt er að meðhöndla á staðnum og þarfnast innlagnar. Starfsemi bráðamóttökunnar er enn í mótun en samkvæmt talningu á tímabilinu júní 2011 til og með október eru skráðar 6508 komur og eru þá ótalin öll símaráðgjöf sem veitt hefur verið á þessu tímabili.

                                                           Selfossi, 08.11.2011

                                                           Sveinn M. Sveinsson, yfirlæknir Handlæknissviðs

                                                           Þorbjörg Þorkelsdóttir, aðstoðar hjúkrunardeildarstjóri