Stafræn myndgreining tekin í notkun á HSu

Samkomulag hefur tekist milli Landspítala – háskólasjúkrahúss og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands um myndgreiningarþjónustu og um aukið samstarf á sviði heilbrigðisþjónustu, kennslu og rannsóknum og styrkja þannig heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) á Selfossi hefur tekið í notkun stafrænt myndgerðarkerfi fyrir röntgenmyndir, ásamt búnaði til gagnaflutnings milli HSu og Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH). Jafnframt hefur HSu gert samkomulag við LSH um myndgreiningarþjónustu, sem felur í sér þjónustu röntgenlæknis, úrlestur röntgenmynda ofl.


HSu og LSH hafa unnið að undirbúningi þessa samstarfs síðustu misseri í samráði við og með stuðningi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis. Þetta samstarf felur í sér, að nú er hægt að senda röntgenmyndir, sem teknar eru á röntgendeild HSu á Selfossi, til úrlestrar hjá röntgenlæknum LSH í gegnum tölvu. Myndir og svör eru aðgengileg öllum læknum HSu með aðgangsstýrðum vefaðgangi á sama hátt og læknum LSH. Þannig fá læknar á HSu sams konar aðgang að myndgreiningarsvörum og væru þeir starfandi á LSH. Þessi þjónusta verður til staðar allan sólarhringinn ef á þarf að halda.


Þessu til viðbótar kemur röntgenlæknir frá LSH á röntgendeildina á Selfossi á dagvinnutíma til að framkvæma ómskoðanir og sinna annarri myndgreiningarþjónustu.Kristján Róbertsson, röntgenlæknir ásamt starfsfólki röntgendeildarinnar.


Þessi nýja myndgreiningartækni felur í sér, að röntgenfilmur eru ekki lengur notaðar og ekki er því þörf á sérstakri aðstöðu til framköllunar röntgenmynda.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið veitti heilbrigðisstofnuninni sérstaka fjárveitingu til kaupa á myndgerðarkerfinu. Starfsmenn HSu og LSH hafa unnið að tæknilegum úrlausnum, sem þurft hefur að leysa til að koma þessu samstarfi á.


Með þessu samstarfi verður myndgreiningarþjónusta HSu mun meiri og betri en áður hefur verið. Svartími verður mjög stuttur og myndgæði mikil. Tölvutæknin er þannig nýtt með virkum hætti til fjarlækninga.
Samkomulag þetta var undirritað þann 21. desember 2005 að viðstöddum Jóni Kristjánssyni, heilbrigðisráðherra sem sendi fyrstu myndina, Magnúsi Péturssyni, forstjóra LSH, Jóhannesi Gunnarssyni, lækningaforstjóra LSH, Ásbirni Jónassyni, forstöðulækni myndgreiningasviðs LSH, þingmönnunum Drífu Hjartardóttir, Hjálmari Árnasyni og Kjartani Ólafssyni, Þorvarði Hjaltasyni, framkvæmdastjóra SASS, starfsmönnum HSu o.fl.


Nánar um tæknina:


Um er að ræða stafrænt CR 25.0 myndplötukerfi frá Agfa Healthcare. Kerfið kemur í stað hefðbundinna filmunotkunar og framköllunar á röntgendeildinni. Hér er um stafræna tækni að ræða þannig að myndirnar eru tilbúnar mjög fljótt til skoðunar og úrvinnslu á tölvuskjám, flutnings á neti sjúkrahússins og vistunar í stafrænni gagnageymslu LSH. Samskonar búnaður er í notkun nú þegar á LSH og víðar sem gerir stofnununum kleyft að greina myndir á hraðvirkan hátt og nýta sér samvinnu við úrlestur.


Með þessu verður myndefni röntgendeildarinnar á stafrænu formi. Notast er við hefðbundinn röntgen búnað en myndirnar eru teknar á kassettur með myndplötu sem gerir umbreytingu röntgengeisla í stafrænt form mögulega. Þetta er nauðsynlegt skref til að geta fylgt nýjustu upplýsingatækni á sviði myndgreiningar eftir.


Með þessum búnaði eykst skilvirkni og öryggi myndgreiningar til hagsbóta fyrir sjúklinga og heilbrigðiskerfið almennt.


Sambærilegt myndplötukerfi er notað á röntgendeild LSH Fossvogi, Hringbraut, Landakoti, Barnaspítala Hringsins, Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og St. Jóssefspítala.Umboðsaðili Agfa Healtcare á Íslandi er Vistor hf.Frá undirritun samkomulags LSH og HSuFrá vi: Ásbjörn Jónasson, forstöðulæknir myndgreiningarsviðs LSH, Guðrún Hálfdánardóttir, geislafræðingur á HSu, Magnús Pétursson, forstjóri LSH og Viktoría Guðmundsdóttir, aðstoðarmaður á röntgendeild HSu.


Samkomulag um aukið samstarf


Stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (Hsu) og Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) hafa komist að samkomulagi um aukið samstarf þessara stofnana í heilbrigðisþjónustu, kennslu og rannsóknum og styrkja þannig heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi. Með samningnum eru skilgreind þau verkefni, sem samningsaðilar ætla að eiga samstarf um, skipulag og þróun þeirra, hvernig staðið skuli að upptöku nýrra samstarfsverkefna og ábyrgðarsvið aðila.


Almennar forsendur samstarfs


Samstarf LSH og HSu leiðir af sér samvinnu við skipulagningu og framkvæmd heilbrigðisþjónustu og á sviði starfsmannamála. Þannig munu aðilar skapa forsendur til samstarfs um ákveðna starfsþætti og starfsmannaskipti.


Skipulag


Yfirstjórn samstarfsins er í höndum samstarfsnefndar. Nefndin er skipuð 3 fulltrúum frá hvorum samningsaðila. Samstarfsnefnd fer með ákvörðunarvald í öllum málum sem samningur þessi fjallar um og hefur yfirumsjón með framgangi og þróun einstakra verkefna.


Samstarfsvettvangur


Þjónusta við sjúklinga.
Stofnanirnar áforma að hafa samstarf á sviðum er ná til þjónustu við sjúklinga. Það verði jafnframt metið hvernig æskilegt er að flytja sjúklinga og starfsfólk á milli sjúkrahúsanna ef óvænt atvik leiða til að slíkt verði nauðsynlegt.


Kennsla.
Starfsemi heilbrigðisvísindagreina Háskóla Íslands fer að mestu leyti fram í tengslum við LSH. Vegna þess hafa LSH og H.Í. komið sér saman um víðtæka samvinnu á sviði kennslu og vísinda með gerð samstarfssamnings. HSu er kennslustofnun fyrir heilbrigðisstarfsfólk og nema skv. sérstöku samkomulagi við H.Í. HSu og LSH telja æskilegt að styðja við kennslu í heilbrigðisvísindagreinum utan Reykjavíkur og munu skoða, í samráði við H.Í. möguleika samstarfs á sviði kennslu.


Fræðsla.
Unnið verður að auknu samstarfi í fræðslumálum, m.a. með því að nýta fjarfundabúnað til miðlunar á fræðslu og kennslu á milli stofnananna.


Vísindarannsóknir.
Á LSH eru í gildi reglur um vísindarannsóknir. LSH og HSu stefna að samræmingu reglna á þessu sviði, til að styðja við vísindarannsóknir og auðvelda samstarf einstakra vísindamanna.


Gæðastarf.
Starf á sviði gæðamála er báðum stofnunum mikilvægt. LSH og HSu munu þróa samstarf á þessu sviði og leitað verður leiða til að hafa samræmda staðla á þjónustu stofnananna þar sem það á við.


Upplýsingatækni.
Á undanförnum misserum hefur á LSH og HSu verið unnið að upptöku rafrænna sjúkraskrárkerfa. Til að nýta þekkingu sem best munu stofnanirnar eiga samstarf um þessi mál til að miðla upplýsingum og tækni og til að draga úr tvíverknaði.


Stofnanirnar stefna að pappírslausum samskiptum við miðlun sjúkraupplýsinga sín á milli.


Persónuvernd.
Til að stuðla að markvissu samstarfi á sviði heilbrigðisþjónustu og við vísindarannsóknir munu aðilar hafa samstarf í málum er lúta að persónuvernd.


Þetta samkomulag var einnig undirritað þann 21. desember 2005Guðrún Hálfdánardóttir og Sigríður Bergsteinsdóttir, geislafræðingar á HSu.