Stækkun Réttargeðdeildarinnar á Sogni

Vinnuhópur um uppbyggingu réttargeðdeildarinnar á Sogni, sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði í lok október sl.,  hélt fund með starfsmönnum deildarinnar  nýlega til að kynna starf vinnuhópsins og leita eftir hugmyndum starfsmanna varðandi uppbyggingu deildarinnar.

Sveinn Magnússon, form. vinnuhópsins, greindi frá starfi hans, upplýsingaöflun og heimsókn vinnuhópsins á réttargeðdeildir  og fleiri deildir í Danmörku og Noregi.  Í vinnuhópnum eru auk formanns Magnús Skúlason, framkv.stj. HSu, Magnús Skúlason, yfir læknir réttargeðdeildarinnar og Leifur Benediktsson, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.  Sveinn greindi frá því, að tillögur vinnuhópsins muni liggja fyrir mjög fljótlega.  Gera megi ráð fyrir, að gerð verði tillaga um að húsnæði verði stækkað verulega, vistrýmum fjölgað og aðstaða vistmanna og starfsmanna verði bætt. Gera megi ráð fyrir, að hönnun nýs húsnæðis og endurskipulagning núverandi húsnæðis hefjist á þessu ári. 


Starfsmenn lýstu skoðunum sínum á aðstöðu skjólstæðinga deildarinnar.
Nefndarmenn svöruðu einnig ýmsum fyrirspurnun starfsmanna.    M.a. kom fram, að gera þyrfti ráð fyrir aðstöðu fyrir iðjuþjálfun, listþerapíu ofl.  Einnig væri mikilvægt að nýta landið umhverfis deildina til ýmissa athafna.


Að afloknum fundi með starfsmönnum höfðu vistmenn verið boðaðir á fund vinnuhópsins.  Var þeim greint frá sömu upplýsingum og fram komu á fundi með starfsmönnum.   Þeir vistmenn, sem mættu á fundinn, greindu frá sínum sjónarmiðum varðandi uppbyggingu deildarinnar, hvað þyrfti að bæta varðandi aðstöðu, þjónustu ofl. 


Gert er ráð fyrir, að vinnuhópurinn skili tillögum sínum til ráðherra mjög fljótlega.