Staðreyndir um sjúkraflutninga í Rangárþingi

Ljósmynd: Ævar Guðmundsson

Ljósmynd: Ármann Höskuldsson.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nýverið birtist fésbókarfærsla íbúa nokkurs í Rangárþingi sem fer með rangt mál um sjúkraflutninga í Rangárþingi. Þessi færsla hefur skapað heitar umræður í samfélaginu. Því þykir framkvæmdastjórn HSU rétt að birta upplýsingar um málið til að leiðrétta alvarlega misskilning og koma í veg fyrir áframhaldandi rangfærslur. Af færslunni má auðveldlega skilja að sjúkrabíll hafi ekki verið staðsettur í Rangárþingi yfir höfuð þegar slys varð í skóla í sveitarfélaginu.  Það er alfarið rangt.

 

Samfélagsmiðlar á netinu hafa það í för með sér að auðvelt er að dreifa upplýsingum hratt milli fólks. Það er í flestum tilfellum til góðs en einnig geta villandi upplýsingar, hatursumræða og rangfærslur dreifst hratt áður en hægt er að koma staðreyndum á framfæri. Hægt er í því sambandi að velta fyrir sér hver sé siðferðileg og samfélagsleg ábyrgð þeirra sem eru að tjá sig um hin ýmsu málefni án þekkingar á málsatvikum. Ávallt er mikilvægt að hófsemi sé gætt þegar menn eru að tjá sig skriflega á vefmiðlum og áríðandi að fólk sé reiðubúið að kynna sér mál og staðreyndir áður en þeir varpa kvíðavaldandi sprengjum í nærumhverfi sitt.

 

Staðreyndir málsins eru þær að sjúkraflutningar í Rangárþingi hafa verið stórefldir frá 15. maí s.l. og það var ekkert óeðlilegt við útkall umræddan dag og lóðamörk í sveitarfélaginu Árborg höfðu ekkert með það að gera. Frá 15. maí s.l. er atvinnulið að sinna sjúkraflutningum og útköllum í fullu starfi á staðarvakt allan sólarhringinn með bílinn ávallt sér við hlið en áður voru hlutastarfandi menn að sinna þessu hlutverki. Sjúkrabíll með tveggja manna áhöfn á staðarvakt er alltaf staðsettur í Rangárþingi, nema eðli málsins samkvæmt þegar hann er að flytja sjúklinga á sjúkrahús. Varasjúkrabíll er staðsettur á Hvolsvelli og hægt hefur verið að nota hann mun oftar eftir að nýtt kerfi hefur verið tekið upp, bæði ef fleiri bíla er þörf t.d. í alvarleg slys og eins ef aðalbíllinn er í öðru útkalli. T.d. hefur varabíllinn verið nýttur í 16 skipti frá því að nýja fyrirkomulagi tók gildi 15. maí s.l. en hafði einungis farið í útkall í eitt skipti frá 1. janúar til 15. maí á þessu ári.

 

Ástæður þess að viðbragð sjúkraflutninga var bætt með efldri mönnun var f.o.f. sívaxandi fjöldi útkalla í Rangárþingi. Fjöldi útkalla er líka orðinn það mikill að nær ómögulegt er að manna bíla með hlutastarfandi sjúkraflutningamönnum, þ.e.a.s. að sinna þessu samhliða því að vera í vinnu annars staðar þannig að hægt sé að  sinna skuldbindingum við aðra vinnuveitendur. Forstjóri HSU tók ákvörðun um að manna að fullu sjúkraflutninga í Rangárþingi 15 maí s.l. með fullskipuðu atvinuliði með sólarhringsviðveru í Rangárþingi. Enn er beðið eftir viðbrögðum heilbrigðisyfirvalda með því að festa í sessi fjármögnun á þessari mikilvægu þjónustu á þessu svæði á Suðurlandi. Lögð hefur verið áhersla á það hjá HSU að auka menntunar- og þjálfunarstig sjúkraflutningamanna og það hefur svo sannarlega verið gert. A.m.k. þrír af sjúkraflutningamönnum í atvinnuliði HSU eru búsettir í Rangárþingi.

 

Umrætt slys varð í hádeginu á miðvikudegi og þegar það varð voru klíniskir starfsmenn HSU – Rangárþingi staðsettir á Hellu á fundi. Einn læknir er á neyðarvakt á hverjum tíma í Rangárþingi og er ýmis staðsettur á Hellu eða á Hvolsvelli. Neyðarlína og vakthafandi varðstjóri sjúkraflutninga á Selfossi, sem hefur með flotastýringu sjúkraflutninga á Suðurlandi að gera, skipulögðu útkallið, sem metið var í hæsta forgangi. Útkall frá Neyðarlínu kom kl 12:45. Aðalsjúkrabíll og áhöfn staðsett í Rangárþingi var að sinna öðru útkalli. Því þurfti að kalla hjálp annars staðar frá sem væri fljótari á vettvang, alveg eins og hefði þurft að gera ef gamla fyrirkomulagið með hlutastarfandi sjúkraflutningamönnum hefði verið við lýði. Það getur alltaf gerst, í Rangárþingi, Árborg eða annars staðar á landinu, að kallað sé eftir sjúkrabíl þegar hann er að sinna öðru verkefni, þannig að útköll lendi hvert ofan í öðru.  Kallaður var til sjúkrabíl frá Selfossi og læknir og hjúkrunarfræðingur fóru af stað frá Hellu á merktum bíl frá HSU. Auk þess var kallaður út varasjúkrabíll frá Hvolsvelli þar sem sjúkraflutningamaður búsettur í Rangárþingi sem ekki var á vakt var kallaður út og fór á vettvang. Læknir og hjúkrunarfræðingur voru fyrst á staðinn rétt um kl. 13 með viðbúnað og skömmu síðar kemur sjúkrabíll. Það gerir viðbragðstíma upp á u.þ.b. 15 mínútur sem er með því besta sem gerist bæði á höfuðborgasvæðinu sem og á landsbyggðinni.

 

Sjúkraflutningar í Rangárþingi eru með þeim öflugustu á landinu sem stendur. Óvíst er með framhald. Forstjóri HSU ákvað, óháð ímynduðum lóðamörkum á Selfossi, að fara út í þessar kostnaðarsömu breytingar s.l. vor vegna brýnnar þarfar á því að efla viðbragð sjúkraflutninga á þessu svæði og það án þess að fyrir lægi með vissu fjármögnun frá ríkisvaldinu. Lögð hefur verið á það mikil áhersla af hálfu HSU, bæði til ráðuneytis velferðarmála og til þingmanna Suðurlands að fjármögnun verði tryggð fyrir þessari þjónustu.  Við bindum ríkar vonir við að ný ríkisstjórn og heilbrigðisráðherra bregðist við með jákvæðum hætti þannig að framhald geti orðið á þessari nauðsynlegu grunnþjónustu.

 

Það var ekkert óeðlilegt við þjónustustig og viðbragð sjúkraflutninga og annarra heilbrigðisstarfsmanna þegar þetta slys átti sér stað. Að halda öðru fram er ósatt og til þess eins fallið að valda íbúum og þeim sem hlut eiga að máli tilefnislausum áhyggjum. Það er líka alveg út í hött að halda því fram að eldra fyrirkomulag með hlutastarfandi sjúkraflutningamönnum, í stað staðarvaktar, í Rangárþingi sé betra eða öflugara en núverandi fyrirkomulag. Það sér hver sem hefur kynnt sér þau mál almennilega. Það má hins vegar e.t.v. réttilega benda á að þessar breytingar og framfarir í þjónustu við Rangæinga s.l. vor hafi ekki verið kynntar nægilega fyrir íbúum. Svo geta menn deilt um lóðamörk í öðru samhengi en þessu.

 

Að lokum viljum við minna á það að þegar kallað er eftir hjálp vegna alvarlegra slysa og veikinda skal ávallt hringja í númerið 1-1-2  óháð því hvar á landinu sem fólk er statt.

 

Virðingarfyllst,

Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga HSU

Styrmir Sigurðarson, yfirmaður sjúkraflutninga HSU