Staðan á Hraunbúðum í Vestmannaeyjum

Starfsemi Hraunbúða er að komast í rétt horf aftur eftir að COVID-19 hópsmit kom upp á heimilinu á öðrum degi jóla. Um leið og COVID smitin voru staðfest var viðbragðsteymi HSU virkjað og fór starfsfólk úr viðbragðsteyminu til Vestmannaeyja til aðstoðar. Með góðu samstarfi viðbragðsteymisins og annarra starfsmanna í Vestmannaeyjum var á skömmum tíma unnt að tryggja öryggi bæði heimilisfólks og starfsfólks. Var það t.a.m. gert með tilheyrandi hólfaskiptingum og má á meðfylgjandi mynd sjá Sigurð Óla Guðbjörnsson, starfsmann tækni-og viðhaldsdeildar HSU, undirbúa niðurrif á einum slíkum COVID vegg.

Snör viðbrögð starfsfólks HSU kom í veg fyrir að veiran næði frekari útbreiðslu og mildi var að engin alvarleg veikindi komu upp hjá þeim sem smituðust.

Ég sendi mínar best kveðjur og þakklæti til allra sem komu að þessum aðgerðum.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU