Staða HSu um áramót

Óvissan, sem ríkt hefur í haust og vetur með starfsemi heilbrigðisstofnana hefur valdið því, að ekki var hægt að ljúka gerð rekstraráætlunar tímanlega fyrir áramót.
Eftir að ljóst varð hvaða breytingar voru gerðar á frumvarpi til fjárlaga við 2. umræðu nú í desember hefur verið unnið að gerð rekstraráætlunar HSu fyrir árið 2011. Heilbrigðisstofnanir eiga að skila sínum áætlunum fyrri hluta janúar.

Þrátt fyrir að verulega hafi verið dregið úr fyrirhugaðri lækkun útgjalda þá er um verulegan vanda að ræða við rekstur stofnunarinnar á næsta ári. Á síðustu tveim árum hafa fjárveitingar til stofnunarinnar verið lækkaðar um 15 % og nú bætast um 6 % við á næsta ári. Samtals yfir 20 % lækkun fjárveitingar á þremur árum hefur óhjákvæmilega mikil áhrif á rekstur og starfsemi heilbrigðisstofnunarinnar.


Við gerð rekstraráætlunar HSu fyrir næsta ár verður m.a. tekið mið af tillögum stjórnenda heilsugæslustöðva og deilda sl. haust um hugsanlega lækkun útgjalda og hækkun sértekna. Stefnt er að því að ljúka við áætlanir einstakra deilda með stjórnendum þeirra í byrjun janúar.


Starfsemi HSu á þessu ári hefur gengið vel þrátt fyrir ýmsa erfiðleika. Útlit er fyrir, að reksturskostnaður stofnunarinnar verði í samræmi við fjárlög ársins. Því er full ástæða til að þakka öllu starfsfólki stofnunarinnar fyrir frábært starf á árinu og góðan hug við að tryggja sem besta þjónustu stofnunarinnar.


F.h. framkvæmdastjórnar þakka ég öllu starfsfólki og samstarfsaðilum HSu fyrir ánægjulegt og gott samstarf á árinu. Bestu óskir um gleðilegt nýtt ár.27. desember 2010,


Magnús Skúlason, forstjóri