Staða HSu í ársbyrjun 2009


Nú í ársbyrjun eru rúm fjögur ár frá því Heilbrigðisstofnun Suðurlands varð formlega til skv. reglugerð, sem heilbrigðisráðuneytið gaf út um sameiningu heilbrigðisstofnana á Suðurlandi frá 1. september 2004. Stofnunin er því að hefja sitt fimmta starfsár.


Þjónustusvæði stofnunarinnar nær til um 20.000 íbúa á Suðurlandsundirlendinu. Um er að ræða 8 heilsugæslustöðvar, eitt sjúkrahús á Selfossi með 71 sjúkrarúm, réttargeðdeild á Sogni í Ölfusi með 7 rými og heilbrigðisþjónustu við fangelsið á Litla Hrauni. Alls eru um 230 stöðugildi við Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Réttargeðdeildina.

Tilgangur sameiningar


Með sameiningu heilbrigðisstofnana á Suðurlalandi var ætlunin að styrkja heilbrigðisþjónustuna á svæðinu. Gert var ráð fyrir að einstakir þættir hennar gætu eflst. Með sameiginlegri stofnun gæfist tækifæri til að jafna vaktaálag starfsmanna. Einnig var gert ráð fyrir meiri samvinnu starfsmanna og aukinni stoðþjónustu. Samnýting rekstrarþátta stofnunarinnar myndi skapa möguleika til hagstæðari reksturs og öflugri rekstrareiningar, nýjum áhersluþáttum og betra starfsumhverfi í heilbrigðisþjónustunni á Suðurlandi.


Meginmarkmið Heilbrigðisstofnunar Suðurlands eru:


· Að ná fram jákvæðum áhrifum með því að starfrækja heilbrigðisþjónustuna á Suðurlandi í einni heilsteyptri stofnun.


· Að þjónustan verði í samræmi við þarfir íbúa svæðisins og eigi þátt í að skapa enn betri aðstæður til búsetu á Suðurlandi.


· Veitt verði sú þjónusta sem skynsamlegt og hagkvæmt er að veita á svæðinu.


· Heilbrigðisstofnun Suðurlands verði metnaðarfullur, framsækinn og eftirsóknarverður vinnustaður með örvandi vinnuumhverfi fyrir þær starfsstéttir, sem þar vinna.


·

Á heilsugæslunni á Selfossi

Að mennta heilbrigðisstarfsfólk í samvinnu við menntastofnanir og skapa þannig góðan grundvöll fyrir starfseminni á Suðurlandi.

Framgangur sameiningarStjórnskipulag


Í kjölfar sameiningar var unnið að gerð stjórnskipurits fyrir hina nýju stofnun. Jafnframt var unnið að gerð starfslýsinga fyrir alla stjórnendur innan stofnunarinnar með hliðsjón af hinu nýja stjórnskipulagi. Nýju stjórnskipulagi var komið á fyrir stofnunina í heild. Ýmis stoðþjónusta var sameinuð, t.d. bókhald, launavinnsla, tölvu- og upplýsingamál, innkaup og viðhald tækja og búnaðar.Heilbrigðisþjónustan


Unnið var að samræmingu á heilbrigðisþjónustu innan stofnunarinnar. Samstarf milli heilsugæslustöðva og sjúkrahússins á Selfossi hefur aukist og íbúar Suðurlands njóta í auknum mæli þjónustu sjúkrahússins. Með auknu samstarfi innan hinnar nýju stofnunar varðandi t.d. lækningar, hjúkrun, ýmsa stoðþjónustu og afleysingar hefur þjónusta stofnunarinnar í heild styrkst.Þjónusta rannsóknadeildinnar á Selfossi hefur stóraukist, en deildin gerir allar rannsóknir, sem hún getur gert, fyrir allar heilsugæslustöðvar á Suðurlandi. Læknar á heilsuæslustöðvum utan Selfoss fá nú svör úr rannsóknum í gegnum tölvu um leið og rannsókn er lokið.


Í ársbyrjun 2009 voru rannsóknatæki deildarinnar tengd rannsóknastofukerfi LSH þannig að hægt verður að skoða allar rannsóknir, á hvorum staðnum sem þær hafa verið framkvæmdar. Slík samtenging skapar mikið öryggi og hagræði.


Myndgreiningardeildin hefur verið samtengd myndgreiningardeild LSH þannig að hægt er að fá úrlestur röntgenmynda allan sólarhringinn alla daga ársins. Gríðarleg breyting frá því sem áður var þegar bíða þurfti eftir svörum í mun lengri tíma.Gerðar hafa verið breytingar á vinnufyrirkomulagi hjá læknum, m.a. í þeim tilgangi að styrkja læknisþjónustu á þjónustusvæðinu, minnka vaktabyrði ofl. Læknisþjónusta var styrkt í Hveragerði og í Rangárþingi með ráðningu í tvær stöður, sem ekki höfðu verið setnar.Heimahjúkrun um kvöld og helgar hefur verið tekin upp á þjónustusvæðum heilsugæslustöðvanna í Hveragerði, Þorlákshöfn og Selfoss.Fyrstu skref til aukinnar sérfræðilæknisþjónustu á heilsugæslustöðvum hafa verið tekin með heimsóknum barnalæknis á heilsugæslustöðvarnar í Hveragerði og Þorlákshöfn. Í samstarfi við samtök sunnlenskra sveitarfélaga var ráðinn iðjuþjálfi til starfa, en mjög mikil þörf var á slíkri þjónustu á svæðinu. Áform eru um að hefja starfrækslu sykursýkismóttöku og með styrkingu geðlæknisþjónustu skapast möguleikar á að opna móttöku hjá geðlækni. Gerð hefur verið úttekt á þörf fyrir þjónustu öldrunarlæknis við stofnunina.Stefnumótun


Lokið var við gerð tillögu að stefnumótun fyrir stofnunina í árslok 2005, þar sem m.a. er lögð áhersla á að stofnuninni verði gert fært að veita sem mest af nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu á þjónustusvæðinu. Mikilvægt er að marka stofnuninni skýrt hlutverk í samráði við heilbrigðisyfirvöld í landinu, þannig að hún þjóni sem best íbúum á Suðurlandi.


Upplýsinga- og tölvumál


Unnið var að samtengingu og samræmingu upplýsinga- og tölvumála hjá hinni nýju stofnun. Samtenging og samræming upplýsingakerfa stofnunarinnar er ein lykilforsenda fyrir raunverulegri sameiningu þannig að hægt sé að ná sem mestri hagræðingu og styrkja þjónustuna. Sjúkraskrár allra heilsugæslustöðva hafa verið samtengdar. Hægt er að komast í sjúkraskrá skjólstæðinga stofnunarinnar á hvaða heilsugæslustöð innan stofnunarinnar sem er, en það er til mikils öryggis og hagræðis fyrir skjólstæðinga og starfsmenn.


Starfsmannamál


Stofnunin hefur annast gerð stofnanasamninga við stéttarfélög starfsfólks. Með þeim samningum hefur kjörum starfsmanna verið komið í samræmdan farveg. Talsvert ósamræmi var í kjörum starfsmanna eftir starfsstöðvum fyrir sameiningu. Það var mjög mikilvægur áfangi í starfsmannamálum stofnunarinnar að ná fram samræmingu og áríðandi að vel tækist til.


Trúnaðarlæknir var ráðinn við stofnunina. Lögð er áhersla á að sinna fræðslumálum starfsmanna vel og hefur stofnunin átt samstarf við nokkrar aðrar heilbrigðisstofnanir, Fræðslusetrið Starfsmennt og Fræðslunet Suðurlands um þau mál.


Mikilvægt er, að starfsmannamálum stofnunarinnar verði vel sinnt. Ljóst er að styrkja þarf þann hluta starfseminnar hið fyrsta.


Rekstur 2008


Nú er fyrstu fjórum starfsárum hinnar sameinuðu stofnunar lokið. Talsverður tími hefur farið í að sameina bókhald, rekstrar- og starfsemisupplýsingar frá mörgum stofnunum. Lítilsháttar samræming er eftir varðandi ýmsa þætti í rekstri stofnunarinnar.


Á árinu tókst að styrkja rekstur stofnunarinnar verulega. Fjárveiting til stofnunarinnar var hækkuð talsvert og tekið á uppsöfnuðum rekstrarvanda fyrri ára. Rekstrarvandi síðasta árs nam um 2 % af heildarútgjöldum stofnunarinnar og er eingöngu vegna mikillar hækkunar verðlags og óhagstæðrar gengisþróunar.


Samhliða því að styrkja þjónustuna á ýmsan hátt hefur verið leitað leiða til að draga úr kostnaði og auka tekjur stofnunarinnar.


Nýbygging á Selfossi


Í byrjun árs var tekinn í notkun fyrsti hluti nýbyggingar við heilbrigðisstofnuna á Selfossi. Þar var um að ræða tvær hjúkrunardeildir fyrir aldraða á 2. og 3. hæð, samtals 40 rúm, og nýjan aðalinngang og anddyri. Einnig var tekið í notkun húsnæði fyrir iðju- og sjúkraþjálfun og kapellu. Nýtt húsnæði fyrir heilsugæslustöð á 1. hæð, tæknirými, geymslur ofl. í kjallara verður væntanlega tekið í notkun næsta sumar.


Sjúkraflutningar í Árnessýslu. Í lok árs 2005 hætti Sýslumannsembættið í Árnessýslu að annast sjúkraflutninga í Árnessýslu. Sýslumannsembættið hafði annast þessa sjúkraflutninga í tæpa hálfa öld. Heilbrigðisstofnunin tók við sjúkraflutningunum í ársbyrjun 2006. Vel hefur tekist til við að skipuleggja sjúkraflutningana að nýju og hefur þessi breyting styrkt heilbrigðisþjónustu á svæðinu verulega. Mjög hefur dregist að koma aðstöðu fyrir sjúkraflutningana fyrir í nýju húsnæði, sem Björgunarfélaga Árborgar er að reisa. Þar verður aðstaða fyrir sjúkraflutninga, brunavarnir og björgunarfélagið. Afar brýnt er að þessi aðstaða verði tilbúin sem allra fyrst, því núverandi aðstaða fyrir sjúkraflutninga er óviðunandi.


Á árinu 2008 fjölgaði sjúkraflutningum í Árnessýslu um 3,3 % frá árinu áður og voru samtals rúmlega 1.700 sjúkraflutningar á árinu. Árið 2006 fjölgaði sjúkraflutningum um 30 % og árið 2007 um 15 %. Verulega hefur því dregið úr hinni miklu fjölgun sjúkraflutninga siðustu árin. Einungis á höfðuborgarsvæðinu og á Suðurnesjum voru fleiri sjúkraflutningar á síðasta ári heldur en í Árnessýslu.


Heilbrigðisstofnunin annast einnig sjúkraflutninga í Rangárvallasýslu og Vestur – Skaftafellssýslu, eða á öllu þjónustusvæði stofnunarinnar. Í heildina voru sjúkraflutningar á öllu þjónustusvæðinu yfir 2000 á síðasta ári.


Horfur á nýju ári


Miklar breytingar eru framundan í starfsemi HSu á nýju ári. Erfiðleikar í efnahagsmálum þjóðarinnar hafa mikil áhrif á heilbrigðisþjónustuna eins og allt mannlíf í landinu. Unnið er að miklum samdrætti í útgjöldum stofnunarinnar. Markmiðin eru að reyna að koma í veg fyrir skerðingu á þjónustu og forðast uppsagnir starfsfólks. Óhjákvæmilegt er að talsverðar breytingar verði á þjónustu stofnunarinnar.


Stjórnvöld hafa boðað miklar sameiningar heilbrigðisstofnana. Gert er ráð fyrir að í hverju heilbrigðisumdæmi verði ein heilbrigðisstofnun. Unnið verður að þessum miklu breytingum nú í upphafi árs. Afar mikilvægt er að sem best samstaða náist um framkvæmd þessara breytinga svo hægt verði að verja þjónustuna svo sem kostur er.


Selfossi, 15. janúar 2009,


Magnús Skúlason, forstjóri.