Sniff ungmenna

Borist hafa fréttir af því að hópur ungmenna hér á svæðinu fikti við að sniffa kveikjaragas.  Því vilja hjúkrunarfræðingar á heilsugæslustöð Selfoss vekja athygli á hættunni sem stafar af slíku. Sumum finnst kannski spennandi að prófa að sniffa bensín, gas, lím og önnur svipuð efni. Slík forvitni getur hins vegar kostað unglingana okkar lífið eða valdið alvarlegu líkamstjóni því að eiturgufurnar sem þeir anda að sér skaða taugakerfið og önnur líffæri. Þessar eiturgufur geta leitt til tímabundinnar blindu ásamt því að skaðað lungu, heila og lifur. Heilaskemmdir eru alvarleg aukaverkun slíks fikts og verða vegna þess að öndun  stöðvast um hríð og heilinn fær ekki nægjanlegt súrefni í lengri eða skemmri tíma. Vitað er um allmörg dauðsföll og örkuml af völdum sniffs. Mjög miklar hættur fylgja því að sniffa jafnvel þó það sé bara gert einu sinni, þessar hættur geta margfaldast ef önnur efni eru notuð samhliða sniffinu s.s. áfengi.

Vert er að hafa í huga að ýmis áhrif vímuefna á líkamsstarfsemina geta verið varanleg og lagast ekki þó að neyslunni sé hætt.

Viljum við því beina orðum okkar til foreldra og forráðamanna um að vera á varðbergi gagnvart kveikjaragasbrúsum, kveikjurum og lími sem finnast í fórum barna þeirra.  Einnig viljum við benda foreldrum á að innöndun á gasi getur haft í för með sér ertingu öndunarfæra sem kemur fram sem hósti og hnerr, aðrar aukaverkanir geta verið svimi, höfuðverkur og ógleði.

Mikilvægt er að ræða þessi mál við unglingana og gera þeim grein fyrir hættunni sem þessu fikti fylgir.


Hjúkrunarfræðingar heilsugæslustöðvar Selfoss.