Skipað í embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða

kristin-bjorg-albertsdottirKristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur skipað Kristínu Björgu Albertsdóttur forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða frá 1. nóvember næstkomandi. Hæfnisnefnd mat Kristínu hæfasta úr hópi fjögurra umsækjenda. Kristín er forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands og var skipuð í það embætti 1. júlí 2013.

Nefnd sem metur hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana er skipuð af heilbrigðisráðherra samkvæmt 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Í henni sitja þrír fulltrúar með þekkingu á rekstri, starfsmannamálum, stjórnsýslu og heilbrigðisþjónustu og má engan skipa til starfa nema hæfnisnefndin hafi talið hann hæfan.

Kristín Björg er fædd árið 1963. Hún lauk prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1987. Síðar hóf hún nám í lögfræði við sama skóla og lauk MA-prófi í lögfræði árið 2008.

Í umsögn hæfnisnefndar segir að Kristín Björg uppfylli afar vel skilyrði auglýsingar um menntun og starfsreynslu. Hún hafi verulega þekkingu og reynslu á sviði heilbrigðisþjónustu, stjórnunar og reksturs, sé gædd góðum leiðtogahæfileikum, hafi á ferli sínum sýnt að hún sé í stakk búin til að takast á við vandasöm og krefjandi verkefni og sé leiðtogi með brennandi áhuga á umbótum í heilbrigðisþjónustu: „Kristín Björg hefur gegnt forstjórastarfi við HSA undanfarin þrjú ár og náð góðum árangri í rekstri, starfsmanna- og gæðamálum“ segir einnig í umsögn hæfnisnefndar.

Kristín hefur á starfsferli sínum meðal annars starfað við hjúkrunarráðgjöf hjá Læknavaktinni, verið deildarstjóri við Heilbrigðisstofnunina á Egilsstöðum og hjúkrunarforstjóri í afleysingum, hún starfaði um árabil við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, meðal annars sem aðstoðardeildarstjóri, sem hjúkrunarforstjóri heilsugæslu við Heilbrigðisstofnunina á Seyðisfirði og einnig við Heilsugæsluna á Fáskrúðsfirði. Þá hefur Kristín gegnt starfi fulltrúa hjá Sýslumanninum í Reykjavík.