Skaðsemi reykinga – hvað er til ráða

 

Jóhanna Valgeirsdóttir

Skaðsemi tóbaksnotkunar er engin ný sannindi. Með þróun vísinda og tækni vitum við sífellt meira um það hversu alvarleg og skaðleg áhrif tóbaks eru á heilsu manna. Tóbaksnotkun er orsök ýmissa alvarlegra sjúkdóma og er í dag eitt af okkar stærstu vandamálum í heilbrigðiskerfinu.

 

Í tóbaksreyk eru um 7000 agnir og lofttegundir og þar af eru 69 krabbameinsvaldandi efni. Samkvæmt Hagstofu Íslands þá er algengustu reykingartengdu sjúkdómarnir hjarta og æðasjúkdómar, krabbamein og langvinn lungnateppa. Allt eru þetta mjög alvarlegir og lífshættulegir sjúkdómar. Hættan á kransæðastíflu tvöfaldast við reykingar, talið er að reykingar séu orsök um 90 % alls lungnakrabbameins og hefur dánartíðni af völdum langvinnrar lungnateppu margfaldast á síðustu áratugum hér á Íslandi.

 

Stöðugt er þrengt að reykingafólki og sífellt fleiri hætta að reykja eða vilja hætta. Til eru mörg úrræði til reykleysis. Eitt af því sem mikið er notað í dag eru sérþróuð lyf við nikótínfíkn en mælt er með lyfjameðferð fyrir þá sem reykja 10 eða fleiri sígarettur á dag. Flestir hafa þörf fyrir stuðning samhliða lyfjameðferð og það hefur sýnt sig að samþætting lyfja og faglegs stuðnings gefur mestan árangur.

 

Á heilsugæslunni á Selfossi opnar reykleysismóttaka fyrir þá sem vilja aðstoð við að hætta að reykja nú á næstu dögum. Reykleysismeðferðin verður í formi viðtala og símaeftirfylgdar og samanstendur af mörgum samverkandi þáttum s.s. lyfjameðferð, atferlismeðferð, fræðslu og ráðgjöf, allt eftir því hvað hentar hverju sinni. Að hætta að reykja er langt ferli og þarfir fólks og aðstæður eru mjög mismunandi. Stuðningsmeðferðin er einstaklingsmiður þar sem lögð er áhersla á að koma til móts við einstaklinginn á hans forsendum. Stuðningur sem þessi er mjög mikilvægur og gott að geta átt kost á þessari þjónustu í heimabyggð. Það er því von mín að þeir sem hafa hug á að hætta að reykja taki mikilvægt skref í átt að betri heilsu og nýti sér þessa þjónustu.

 

Heilsufarslegur ávinningur af því að hætta að reykja

Hætti fyrir

Ávinningur

20 mín

Blóðþrýstingur og púls lækkar, blóðflæðið batnar sérstaklega í höndum og fótum

8 klst

Súrefnismettun í blóði verður eðlileg og líkur á hjartaáfalli minnka

24 klst

Kolsýringur í blóði minnkar, lungu byrja að hreinsa sig

48 klst

Líkaminn er nú laus við nikótín, lyktar- og bragðskyn batnar

72 klst

Öndun verður léttari og úthald eykst

2-12 vikum

Blóðflæði um líkamann eykst, áreynsla og hreyfing verður auðveldari

3-9 mán

Öndunarvandamál minnka (hósti, mæði og surg fyrir brjósti), Lungnastarfsemi eykst um 5-10%

5 árum

Hættan á hjartaáfalli hefur minnkað um helming

10 árum

Dregið hefur úr líkum á lungnakrabbameini um helming, líkur á hjartaáfalli eru nú álíka og hjá þeim sem aldrei hafa reykt

 

 

Frekari upplýsingar gefur Jóhanna Valgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur johanna@hsu.is

Heimildir:

http://www.hagstofa.is/Pages/95?NewsID=5028

http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item11972/haettu_fyrirlifid.pdf

 

 

f.h. heilsugæslunnar á Selfossi

Jóhanna Valgeirsdóttir