Hjúkrunardeildirnar Fossheimar og Ljósheimar

 

Á Fossheimum og Ljósheimum eru 40 hjúkrunarrými og þar af er 8 rúma deild fyrir heilabilaða og 2 hvíldarrými. Á hjúkrunardeildunum er veitt einstaklingshæfð hjúkrun þar sem hjúkrunarfræðingur, sjúkraliði og starfstúlka hafa umsjón með hverjum einstaklingi og leitast er við að uppfylla líkamlegar, andlegar og félagslegar þarfir hans í samvinnu við aðstandendur hans og annað starfsfólk deildarinnar. Á deildunum er leitast við að aðstoða og styrkja einstaklinga í athöfnum daglegs lífs. Virkni í daglegu lífi er nauðsynleg og getur hún falist í ýmiskonar athöfnum allt eftir áhuga, vilja og getu hvers og eins. Virkni getur til dæmis falist í samveru og spjalli, föndri, söngstund, leikfimi eða göngutúr.

 

Sjá nánar hér:  Upplýsingabæklingur Foss og Ljósheima

 

Vinafélag heimilisfólks á Ljósheimum og Fossheimum hefur verið mikilvægur bakhjarl deildanna en meginmarkmið félagsins er að efla tómstunda- og afþreygingarstarf fyrir heimilisfólk á Fossheimum og Ljósheimum. Einnig auka möguleika þeirra á tilbreytingu í daglegt líf og að standa fyrir fræðslu um sjúkdóma og áhersluþætti sem snúa eða eldra fólki.

Eden hugmyndafræðin

Starfsemi Fossheima og Ljósheima byggir á hugmyndafræði Eden stefnunnar.

Hugmyndafræðin  á rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna til ársins 1991.

Upphafsmaður stefnunnar var læknirinn William H. Thomas.

William H. Thomas setti sig í spor heimilisfólks á hjúkrunarheimili.  Hann fann út að leiði, einmanaleiki og vanmáttarkennd var útbreitt vandamál á hjúkrunarheimilum í Bandaríkjunum.  Niðurstaða hans var sú að ekki er hægt að gefa lyf við einmanaleika, vanmáttarkennd og leiða og gengur hugmyndafræði hans út á það að eyða þessum þremur plágum.

Eden hugmyndafræðin miðar að því að auka lífsgæði aldraðra.  Stuðlar  að umhverfi þar sem starfsfólk og heimilisfólk þroskast, vex, upplifir ánægju og lærir af hvort öðru.

Fossheimar og Ljósheimar hafa sett sér eftirfarandi markmið tengt Eden hugmyndafræðinni:

  •       Að þjónustan sé með heimilisbrag í stað sjúkdómsmiðunar.
  •       Að horft sé á getu – ekki getuleysi.
  •       Að sjálfsákvörðunarréttur einstaklinga sé virtur.
  •       Að skapa innihaldsríkt líf.
  •       Að íbúar fái tækifæri til að dafna sem einstaklingar þrátt fyrir heilsuleysi.
  •       Að stuðla að þátttöku og samstarfi aðstandenda við umönnun.

 Í dag eru mörg Eden heimili starfandi víða um heim og fer þeim sífellt fjölgandi.  Á Íslandi hafa verið haldin námskeið útfrá Eden samtökunum í Danmörku sem komin eru hvað lengst í að innleiða þessa hugmyndafræði. 

Fyrir þá sem vilja fræðast meira um Eden stefnuna, Þá er hún hér

Á Fossheimum hafa starfsmenn haft frumkvæði af því að vera með svokallaða lífsneistadaga. Nánar

Á Foss og Ljósheimum er deildarstjóri Guðlaug Einarsdóttir og aðstoðardeildarstjóri Sólveig Hrönn Gunnarsdóttir