Sjúkraflutningar í Rangárvallarsýslu

Vegna gagnrýni, sem fram hefur komið á fyrirhugaðar breytingar við sjúkraflutninga í Rangárvallasýslu telur framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu) rétt að eftirfarandi komi fram.


Vegna kröfu um lækkun útgjalda hefur framkv.stjórn stofnunarinnar samþykkt margháttaðar aðgerðir til að lækka útgjöld stofnunarinnar. Samtals þarf að lækka útgjöld hennnar um rúmlega 200 m.kr. á ársgrundvelli. Óhjákvæmilegt er, að svo mikil útgjaldalækkun hafi áhrif á þjónustu stofnunarinnar, þó reynt hafi verið að koma í veg fyrir skerðingu á þjónustu og forðast uppsagnir starfsfólks til hins ýtrasta.


 

Til þess að tryggja sem mest gæði heilbrigðisþjónustunnar og sjúkraflutninganna er lögð áhersla á, að sem flestir sjúkraflutningamanna hafi það að aðalstarfi og fái þar af leiðandi sem mesta menntun og þjálfun og verði öruggari í sínu starfi. Með hliðsjón af því var talið, að með því að atvinnumenn sinni sjúkraflutningum í vestari hluta Rangárvallarsýslu auki það öryggi þeirra sem þar búa, eða a.m.k. verður það jafn gott þar sem tímalengd í útkalli mun ekki lengjast í vestari hluta sýslunnar. Haft var samráð við yfirlækni sjúkraflutninga á landinu og umsjónarlækni sjúkraflutninga í heilbrigðisumdæminu varðandi þessar breytingar. Í samráði við stjórnendur heilsugæslu Rangárþings er nú verið að fara yfir þessa hugmynd með hliðsjón af þeim ábendingum, sem fram hafa komið.


Fjöldi útkalla á sjúkrabílum í Árnessýslu eru 11 á viku eftir kl. 16:00 á daginn, en í Rangárvallasýslu eru 2 – 3 útköll á viku eftir kl. 16:00. Heildarfjöldi útkalla í Árnes- og Rangárvallasýslu utan dagvinnutíma eru því 14 útköll með tveimur fullmönnuðum sjúkrabílum (atvinnusjúkraflutningamenn). Sjúkraflutningar utan dagvinnutíma eru því að meðaltali 1 flutningur á sólarhring á bíl. Á því undir langflestum


kringumstæðum að vera hægt að sinna þessum útkallsfjölda á þessum tíma.


Með fyrirhugðuðum breytingum á sjúkraflutningum í Rangárvallasýslu var gert ráð fyrir, að útgjöld stofnunarinnar lækki um 14 m.kr. á ársgrundvelli. Jafnframt verða allir sjúkraflutningar á þjónustusvæði stofnunarinnar sameinaðir undir eina yfirstjórn. Þar með er búið að sameina yfirstjórn allra þjónustuþátta stofnunarinnar frá því sameiningarferlið hófst í árslok 2004. Breytingarnar taka mið af tillögum nefndar heilbrigðisráðuneytis frá janúar 2008 varðandi þjónustu, hagræðingu og sveigjanleika í rekstri..