Sjúkraflutningar í Árnessýslu flytjast til HSu

Sýslumannsembættið í Árnessýslu hefur sagt upp samkomulagi við Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið um sjúkraflutninga í Árnessýslu frá og með 31. desember nk. Viðræður hafa verið í gangi við Brunavarnir Árnessýslu um að þær taki að sér þessa flutninga. Ekki hefur tekist að ná samkomulagi við Brunavarnirnar um þessa þjónustu. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur því ákveðið, að fela Heilbrigðisstofnun Suðurlands (Hsu) að annast þessa flutninga.

Lögreglumenn sýslumannsembættisins hafa sinnt sjúkraflutningunum og notað aðstöðu lögreglumanna. Um næstu áramót hætta lögreglumenn því að sinna sjúkraflutningum og nauðsynlegt verður að ráða sérstaka sjúkraflutningamenn. Jafnframt þarf að koma upp húsnæði fyrir sjúkraflutningabílana og aðstöðu fyrir sjúkraflutningamenn. Skammur tími er til stefnu, en allt verður reynt til að tryggja að sem minnst röskun verði á þjónustunni vegna þessara breytinga. Unnið er að skipulagningu þjónustunnar og undirbúningi vegna nauðsynlegra framkvæmda fyrir sjúkraflutningabíla og starfsmenn.


HSu hefur umsjón með sjúkraflutningum í Rangárvalla- og Skaftafellssýslum, en sjúkraflutningamenn þar hafa verið starfsmenn heilsugæslustöðvanna um árabil.