Sjúkraflutningamönnum á Suðurlandi hefur fjölgað um 7 manns í föstum stöðum frá árinu 2015

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands vísar á bug villandi fyrirsögn fréttamanns Stöðvar 2 þann 30. desember 2018  um fækkun sjúkraflutningamanna á Suðurlands þrátt fyrir fjölgun alvarlegra slysa.  Það er mikill ábyrgðarhluti hjá fréttamanni að dreifa vísvitandi villandi fréttum af raunverulegri stöðu sjúkraflutninga á Suðurlandi og sá með því tortryggni. Hafa skal það sem sannara reynist.

Hið sanna er að að frá árinu 2014 hefur fjöldi sjúkraflutinga vaxið um 40% á Suðurlandi. Fjárframlög hafa aukist til sjúkraflutinga á sama tíma, en fjármunir til reksturins vaxa ekki jafn hratt og starfsemin. Fjárveitingavaldinu er hins vegar vel kunn staðan og allir aðilar meðvitaðir um hver aukningin hefur verið.  Nauðsynlegt er að tryggja bestu þjónustu og öruggt viðbragð sjúkraflutninga fyrir það fé sem er til ráðstöfunuar. Á síðustu tveimur árum hefur kostnaður við sjúkraflutninga á Suðurlandi vaxið um 150 millj. kr. og er það meira en stofnunin ræður við. Á sama tíma hefur sjúkraflutningamönnum verið fjölgað úr 17,2 stöðugildum árið 2015 í 27,3 stöðugildi þegar mest var nú í sumar og haustið 2018 til að bregðast við auknu álagi.  Mönnun hefur verið með þeim hætti að sami fjöldi sjúkraflutningamanna er á vakt á Selfossi og í Rangárþingi óháð álagstíma og dreifingu útkalla yfir sólarhringinn.  Til að mæta auknum kostnaði og til að dreifa mönnun betur á álagstímum verður sett inn eina bakvaktlína í stað staðarvaktar á næturvöktum þann 1. febrúar 2019  Þá verða stöðugildi alls 24,1 til að byrja með.

Þessi breyting er unnin í samráði og samvinnu við stjórnendur og millistjórnendur í sjúkraflutningum innan HSU og var vel kynnt trúnarðarmönnum sjúkraflutningamanna og stéttarfélagi sjúkraflutningamanna, LSOS, bæði símleiðis og á samstarfsnefndarfundi.  Allar breytingar er varða rekstur og breytt skipulag eru upplýstar til ráðuneytis og stærri breytingar samþykktar af ráðuneyti. Viðbragð sjúkraflutninga á Suðurlandi verður ekki skert á svæðinu og ávallt er bætt í mannskap þegar álagstoppar myndast í útköllum.  Það mun ekki breytast frá því sem nú er.   Frá árinu 2015 hefur þvi verið fjölgað um 7 sjúkraflutningamenn á Suðurlandi samhliða vaxandi álagi. Á álagstímum, eins og á sumrin er bætt enn betur við mönnun eins og gert var s.l. sumar og nú á haustimánuðum 2018. Engum fastráðnum sjúkraflutningamönnun hefur verið sagt upp störfum.

Framkvæmdastjórn HSU harmar óvandaðan fréttaflutning Stöðvar 2 þar sem einungis er hálf sagan sögð um mönnun sjúkraflutninga á Suðurlandi. Fyrirsögn fréttarinnar er beinlínis ósönn og til þess eins gerð að valda íbúum óþarfa áhyggjum og kasta rýrð á fagleg og framúrskarandi vinnubrögð sjúkraflutningamanna á Suðurlandi sem starfa þar við afar erfiðar aðstæður og sívaxandi álag.

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.