Sjúkrabifreiðin x-969

Meðfylgjandi mynd er af Jóni Péturssyni og bifreiðinni  X-969.
Bifreiðin var af tegundinni Citroen og var gefin af Stefáni Ketilssyni frá Roðgúl á Stokkseyri. Þetta var fyrsta sjúkrabifreiðin sem stofnunin eignaðist. Sjúkrabifreið þessi var einungis notuð fyrir sjúklinga stofnunarinnar, en lögreglan sá annars um almenna sjúkraflutninga á þessum tíma.

 

Jón Pétursson eða Nonni P. eins og hann er alltaf kallaður er á myndinni um 45 ára gamall og var myndin tekin um vorið 1982 fyrir utan nýja sjúkrahúsið. Hana tók Sigurður Jónsson fyrrverandi kennari á Selfossi.  Sjúkrahús Suðurlands flutti í þetta nýja húsnæði í desember 1981, en hafði áður verið til húsa að Austurvegi 28 á Selfossi.

 

X-969 var í notkun til margra ára og átti stofnunin 2 sjúkrabíla eftir þennan. Sjúkraflutningum innan stofnunarinnar var síðan hætt við sameiningu allra heilsugæslustöðva á Suðurlandi og Heilbrigðisstofnunarinnar á Selfossi. Sú sameining varð til 1. sept. 2004.  

 

Í ársbyrjun 2006 varð síðan breyting á þessu þegar stofnunin yfirtók alla sjúkraflutninga  í Árnessýslu, sem Sýslumannsembættið á Selfossi hafði sinnt í tæplega 50 ár. Mikil fjölgun hefur orðið á sjúkraflutningum undanfarin ár og ekkert lát á þeirri aukningu.

 

Í dag eru 4 sjúkrabílar til afnota fyrir sjúkraflutninga Árnessýslu og samtals 8 sjúkrabílar fyrir  alla stofnunina.