Sjónlag fjarþjónustuverkefni á sviði augnlækninga á HSU Vestamannaeyjum

Að beiðni HSU var settur upp fullkominn tækjabúnaður á sviði augnlækninga á HSU í Vestmannaeyjum. Sjónlag sér um reksturinn og læknar Sjónlags í Reykjavík þjónusta skjólstæðinga með fjarþjónustu.  

Síðla árs 2021 var byrjað að taka á móti fólki í myndatökur á HSU í Vestmannaeyjum.

 

Skilgreining verkefnis:

Augnlækningar fjalla bæði um greiningu, meðferð og eftirlit vegna bráðra augnvandamála og langvarandi augnsjúkdóma. Algengustu augnsjúkdómarnir sem krefjast reglubundins eftirlits eru hrörnun í augnbotnum, sykursýki og gláka. Þessa sjúkdóma er hægt að meta með fullkomnum tækjabúnaði auk skoðunar augnlæknis. Þessir sjúkdómar krefjast reglubundins eftirlits, jafnvel nokkrum sinnum á ári, og henta þeir því vel til fjarlækninga. Einnig er unnt að nýta tæknina og fjarlækningar við greiningu á t.d. háum blóðþrýstingi og skyndilegu sjóntaki eða öðrum bráðatilfellum.

Skoðun augnlæknis er grundvöllur þessara greininga og meðferða, og því er ekki hægt að komast hjá því að hitta slíkan eftir því sem þörf krefur. Það er hins vegar hægt að fækka slíkum heimsóknum ef þær krefjast ferðar til höfuðborgarsvæðisins, með því að gera þessar rannsóknir í heimabyggð.

Almennum augnlækningum og sjónmælingum, fyrir gleraugum eða linsum, er ekki hægt að sinna á þennan hátt. Slíkt krefst heimsóknar til augnlæknis og mun sú þjónusta byggjast upp með tímanum.

Markmið

1)            Færa nýjustu tækni til greiningar og eftirlits augnsjúkdóma i heimabyggð

2)            Sinna reglubundnu eftirlit vegna langvarandi augnsjúkdóma í heimabyggð og á þann hátt fækka ferðum skjólstæðinganna til Reykjavíkur

3)            Skapa forsendur fyrir augnlækna að veita fullkomna þjónustu í heimabyggð

 

Ferli fjarlækingaþjónustunnar

Tími í myndatökur hjá HSU í Vestmannaeyjum er bókaður, læknar Sjónlags lesa úr myndum og senda niðurstöður í Heilsuveru ( heilsuvera.is ) og læknabréf á heilsugæslu.

 

Reynslan hingað til

Verkefnið hefur farið fram úr björtustu vonum. Tæknin virkar fullkomlega, ljóst er að við erum að ná settum markmiðum. Læknar Sjónlags hafa greint sjúkdóma sem þarf að meðhöndla. Sjúklingar eru bókaðir í eftirlit í heimabyggð í stað heimsóknar til Reykjavíkur, eftir því sem við á.

 

Sóknartækifæri

Verkefni sem þetta þarf að festa rótum, heilbrigðisstarfsfólk þarf að átta sig á þessari þjónustuviðbót í heimabyggð og heimamenn að nýta sér þjónustuna. Fólk í sykursýkiseftirliti getur nýtt þessa starfssemi í meira mæli. Skv. mati þá var þessi hópur stærri en þeir sem nýta þjónustuna í dag. Eðlilegt er að svona verkefni taki tíma til þess að festast í sessi og fólk læri að nýta sér þjónustu í heimabyggð.  

 

Framtíðin

Til viðbótar við fjarþjónustu þá munu augnlæknar Sjónlags veita staðbundna þjónustu í Vestmannaeyjum. Hafa ber í huga að það eru margar sérgreinar í augnlækningum og því ljóst að þessi þjónusta verður takmörkuð.  Fjarlækningar eru grunnstoð verkefnisins ásamt því að vera lykill að aukinni þjónustu.

Stuðningur Lions, og heimamanna við verkefnið er ómetanlegur og það verður spennandi að sjá þessa þjónustu þróast og dafna.