Sérmerktir forgangsakstursbílar hjá HSU

Heilbrigðisstofnun Suðurlands gerði nýverið langtíma samning við Bílaleigu Akureyrar um leigu á 16 bílum til afnota fyrir stofnunina og endurnýjaði þar með allan bílaflota sinn. Flestir bílarnir eru af gerðinni Kia Ceed og Toyota Rav 4, auk tveggja annarra bíla.  Bílarnir hafa allir verið merktir stofnunni með áberandi hætti og sá SB skiltagerð í Þorlákshöfn um það.

Þrír af þessum bílum eru sérmerktir sem forgangsakstursbílar með áberandi sjálflýsandi röndum neðarlega á hliðum sem tákn fyrir leyfi til slíks aksturs og sérstakan ljósabúnaði á þaki sem hægt er að kveikja á bláum blikkljósum og vekja þannig enn betur athygli.  Að auki er sírenu búnaður á þeim, svo ekki fari framhjá neinum þegar þeir eru á ferðinni í forgangsakstri.  Þessir bílar eru staðsettir í Laugarási, á Kirkjubæjarklaustri og hjá Sjúkraflutningum. Allt þetta er gert með það í huga að þjónustan skili sér örugglega á áfangastað á sem skemmstum tíma þegar hver mínúta skiptir máli. Útbúnaður bílanna er einnig til þess gerður að auka öryggi starfsfólksins sem sinnir forgangsþjónustunni.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands rekur 10 starfsstöðvar um allt Suðurland, í Þorlákshöfn, Hveragerði, Laugarási, Selfossi, Hellu, Hvolsvelli, Vestmannaeyjum, Vík Mýrdal, Kirkjubæjarklaustri og á Höfn í Hornafirði. Á þessum stöðvum sinnir hjúkrunarfólk og læknar oft óvæntum útköllum vegna slysa og bráðra veikinda. Viðbragðstími þarf að vera sem stystur og oft þarf að fara um vegi sem eru utan alfaraleiðar og aðstæður til akstur geta verið mjög misjafnar.  Vel búnir bílar eru því nauðsynlegir til að tryggja örugga og skjóta þjónustu þegar mikið liggur við.