Samtengingu sjúkraskrárkerfis HSu lokið

Lokið er við að sameina sjúkraskrárkerfi (Sögu kerfi) fyrir allar heilsugæslustöðvar innan Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.  Allar heilsugæslustöðvarnar eru nú tengdar við einn gagnagrunn fyrir sjúkraskrárkerfi stöðvanna.

Með slíkri samtengingu næst umfram allt öryggi í rekstri kerfisins, þar sem hægt verður að þjónusta það miðlægt og öll umsýsla, svo sem afritunartaka er á einum stað. Einnig er þetta mikill vinnusparnaður fyrir starfsfók sem notar sjúkraskrárkerfi.


Annar og ekki síður mikilvægur þáttur hvað varðar sameiningu gagnagrunnanna er sá, að með því er auðveldað aðgengi að upplýsingum á milli stöðva ef þess gerist þörf, t.d. þegar sjúklingur, sem alla jafna sækir eina stöð, sækir þjónustu á annarri heilsugæslustöð, eða flytur á milli staða innan svæðisins. Einnig ef sendar eru rannskóknir á Selfoss þá koma þær upplýsingar beint inn í sjúkraskrárkerfi og getur þess vegna læknir á Kirkjubæjarklaustri verið kominn með niðurstöður úr þeim rannsóknum um leið og þær eru skráðar inn, engar símhringingar eða sendingar á símbréfum. Ef fólk kemur á vaktina á Selfossi þá kemur skráningin inn hjá heimilslækni viðkomandi einstaklings strax.


Unnið hefur verið að sameiningu sjúkraskrárkerfa heilsugæslustöðvanna sl. tvö ár í framhaldi af sameiningu heilsugæslustöðva á Suðurlandi í eina heilbrigðisstofnun.  Endurnýja hefur þurft tölvu- og hugbúnað, ásamt því að styrkja tengingar milli heilsugæslustöðva.  Fyrst voru heilsugæslustöðvarnar á Hellu, Hvolsvelli og Selfossi tengdar saman í einn gagnagrunn sl. haust, síðan stöðvarnar í Hveragerði og Þorlákshöfn fyrir síðustu jól, og loks stöðvarnar í Laugarási, Vík og Kirkjubæjarklaustri nú í mars.