Samstarf HSU og Árborgar vegna skimunar í Sunnulækjarskóla

Á morgun, fimmtudaginn 8. október, munu um 600 einstaklingar sem voru úrskurðaðir í sóttkví laugardaginn 3. október sl. mæta í sýnatöku vegna COVID-19 smita í Sunnulækjarskóla á Selfossi.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi sér um skimunina og þar sem um mikinn fjölda sýna er að ræða mun Sveitarfélagið Árborg leggja til aðstöðu í íþróttahúsi Sunnulækjarskóla fyrir skimunina.

Skimunin í Sunnulækjarskóla hefst kl. 9.00 og er reiknað með að hún standi yfir til kl. 16. Foreldrar barna í Sunnulækjarskóla eru beðnir um að hringja ekki í heilsugæsluna á Selfossi til þess að fá upplýsingar um skimunina, þar sem mikið álag er á stofnuninni. Nánari upplýsingar um sýnatökuna verða sendar foreldrum í tölvupósti.

Þeir sem fá neikvæða niðurstöðu úr skimuninni verða lausir úr sóttkví þegar niðurstaða liggur fyrir.

HSU þakkar öllum þeim aðilum sem koma að skipulagningu og framkvæmd þessa verkefnis.