Samræming sjúkraflutninga

Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu) hefur samþykkt, að sameina yfirstjórn allra sjúkraflutninga á þjónustusvæði HSu. Þar með er búið að sameina yfirstjórn allra þjónustuþátta stofnunarinnar frá því sameiningarferlið hófst í árslok 2004. Þessi breyting tekur jafnframt mið af tillögum nefndar heilbrigðisráðuneytis frá janúar 2008 varðandi þjónustu, hagræðingu og sveigjanleika í rekstri. Breytingin hefur þegar tekið gildi. Ármann Höskuldsson hefur verið ráðinn yfirmaður sjúkraflutninga stofnunarinnar, en hann var áður yfirmaður sjúkraflutninga í Árnessýslu.


 

Heilbrigðisstofnunin annast alla sjúkraflutninga á þjónustusvæði stofnunarinnar. Starfsstöðvar sjúkraflutninga eru á Selfossi, Hvolsvelli, Vík og Kirkjubæjarklaustri, samtals með átta sjúkraflutningabifreiðar. Heildarfjöldi sjúkraflutninga árið 2008 var rúmlega 2.000 flutningar.