Samningur vegna fyrstu viðbragða í alvarlegum slysum/veikindum í Öræfum

Það er mikil ánægja að geta greint frá nýundirrituðum samning milli Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Björgunarsveitarinnar Kára í Öræfum sem var undirritaður þann 15. maí 2022 og gildir í 2 ár.  Samningur þessi markar tímamót og felur í sér að stofnað hefur verið Vettvangshjálparlið í Öræfum. Nú þegar eru nokkrir meðlimir Björgunarfélagsins Kára með þjálfun í vettvangshjálp og fyrstu hjálp í óbyggðum. Mikið hefur mætt á Björgunarsveitinni undanfarin ár og þeir komið að fyrstu hjálp í alvarlegum slysum á svæðinu þar sem sveitin hefur staðið sig einstaklega vel.

Í Öræfasveit er oft á tíðum langt í sérhæfða aðstoð og langar vegalengdir milli staða.  Sem dæmi má nefna eru 74 km. frá Kirkjubæjarklaustri að Skaftafelli og þaðan í austurátt að Höfn 134 km. Í alvarlegum tilfellum er því nauðsynlegt að hafa öflugan viðbragðshóp á svæðinu til þess að bregðast skjótt við og hefja fyrstu hjálp þar til heilbrigðisstarfsfólk og lögregla koma á staðinn.

Vettvangsliðarnar koma til aðstoðar í alvarlegum slysum og veikindum, eftir boð frá Neyðarlínu, ef langt er í lögreglu og sjúkraflutningslið og sinna fyrstu hjálp.  Þeir munu vera í sambandi við sjúkraflutninga, lækna og lögreglu og vinna undir þeirra stjórn á vettvangi og hafa leyfi til að aka forgangsakstur sé þess óskað.  Allur nauðsynlegur sjúkrabúnaður, lyf og fleira mun koma frá HSU.  Vettvangsliðar munu fá  þjálfun og námskeið hjá sjúkraflutningamönnum HSU. 

Að sögn Hermanns Marinós Maggýjarsonar yfirmanns sjúkraflutninga hjá HSU, er mikil ánægja með þetta samkomulag.  Björgunarsveitin Kári hefur nú þegar sannað sig og aðstoðað í erfiðum útköllum.