Samkomulag vegna fyrstu viðbragða í alvarlegum slysum/veikindum

Samkomulag milli Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Björgunarfélagsins Eyvinds á Flúðum, Lögreglunar í Árnessýslu og Árnesingadeildar Rauða Krossins var undirritað þann 21. Júní.  Samkomulag þetta markar tímamót og felur í sér að stofnað verður Vettvangshjálparlið á Flúðum, mannað 13 einstaklingum. Nú þegar eru nokkrir meðlimir Björgunarfélagisins Eyvinds með þjálfun í vettvangshjálp og fyrstu hjálp í óbyggðum.

  Vettvangsliðarnar koma  til aðstoðar í alvarlegum slysum og veikindum, eftir boð frá Neyðarlínu, ef langt er í lögreglu og sjúkraflutningslið og hefja fyrstu hjálp.  Þeir munu vera í sambandi við sjúkraflutninga, lækna og lögreglu og vinna undir þeirra stjórn á vettvangi og hafa leyfi til að aka forgangsakstur sé þess óskað.  Allur nauðsynlegur sjúkrabúnaður mun koma frá Árnesingadeild RKÍ og HSu mun útvega nauðsynleg lyf og fleira sem þarf hverju sinni.  Vettvangsliðum verður gert að sækja þjálfun og námskeið hjá sjúkraflutningamönnum HSu og eru skyldugir til að mæta í starfssþjálfun hjá sjúkraflutningum HSu að lágmarki 24 klst. á ári.  Samkomulagið gildir í 2 ár og tók gildi 21. Júní sl.

Að sögn Ármanns Höskuldssonar, umsjónarmanns sjúkraflutninga hjá HSu, er mikil ánægja með þetta samkomulag, þeir hafi nú þegar sannað sig og aðstoðað í útköllum.  Þetta fyrirkomulag hefur verið reynt á Kjalarnesinu í 2-3 ár og gengið mjög vel. Þar hafi m.a. þremur einstaklingum verið bjargað úr hjartastoppi.