Samkomubann á Íslandi

Eins og öllum er kunnugt  hefur verið sett á samkomubann hérlendis vegna kórónuveirunnar og tekur það gildi á miðnætti 15. mars n.k.
Þetta kom fram á blaðamannafundi í dag sem heilbrigðisráðherra efndi til í Ráðherrabústaðnum.
Forsætisráðherra greindi því að sóttvarnalæknir hefði sent heilbrigðisráðherra tillögu um samkomubann og eru engin fordæmi fyrir þessu í lýðveldissögu Íslands.
Um er að ræða samkomubann þar sem fleiri en 100 manns koma saman og gildir næstu 4 vikur, til 13. apríl. Varðandi minni samkomur er fólk hvatt til að hafa gott bil á milli sín, allt að 2 metra.
Gert er ráð fyrir því að skólar á framhalds- og háskólastigi loki, en starf í grunn- og leikskólum haldi áfram um sinn.

 

Allt þetta skiptir miklu máli fyrir almannaheill í landinu og því áríðandi að farið sé að þessu banni svo smitleiðir verði takmarkaðri. Allt snýst þetta um að vernda þá sem viðkvæmir eru fyrir og koma í veg fyrir eins og hægt er að smit verði á milli manna.

 

Starfsfólk HSU hefur ekki farið varhluta af þessu öllu saman og gríðarlegt álag hefur verið á deildum sem rekja má til annara veikinda sem herja líka á landsmenn núna og þá líka heilbrigðisstarfsfólkið sjálft.
Það má þó svo sannarlega hrósa starfsmönnum HSU sem leggja mikið á sig þessa dagana, því álag á heilbrigðisstarfsfólk á suðvesturhorninu hefur verið mjög mikið undanfarnar vikur og minnkar ekki á næstunni miðað við horfur.

 

Hugsum vel um hvort annað og þá sem standa okkur næst og pössum sérstaklega að gæta að eldra fólkinu okkar og ræðum hlutina við börnin á skynsaman hátt, notum ekki hræðsluáróður.
Verum þó bjartsýn, vorið er á næsta leyti og þetta er sem betur fer tímabundið ástand og snýst um að þrauka og halda út næstu tvo mánuðina.