Rósuskjól á Sogni

Þann 26. okt. sl. afhenti Rósa Aðalheiður Georgsdóttir Réttargeðdeildinni að Sogni gróðurhús að gjöf frá Kærleikssjóði Sogns. Rósa beitti sér á sínum tíma fyrir stofnun sjóðsins og er hann í vörslu Landsbanka Íslands sem stutt hefur sjóðinn myndarlega.Björgólfur Guðmundsson formaður bankaráðs Landsbankans var viðstaddur afhendinguna ásamt Jóni Kristjánssyni,heilbrigðisráðherra. Í gróðurhúsinu munu vistmenn fá tækifæri til þess að sinna ylrækt en ræktun matjurta er m.a.stunduð á Sogni og er hluti af þeirri endurhæfingu sem vistmenn fá. Gróðurhúsið hefur hlotið nafnið Rósuskjól. Þá má nefna að einn af vistmönnum á Sogni hafði yfirumsjón með smíði hússins. Á sl. ári gaf sjóðurinn deildinni m.a. sjónvarpstæki.

Í kaffisamsæti sem haldið var að lokinni afhendingu kom fram í máli Óskars Reykdalssonar, lækningaforstjóra HSu að einstakur árangur hafi náðst í endurhæfingu þeirra sjúklinga sem vistast hafa á Sogni. Alls hafa 36 sjúklingar verið innlagðir á deildina. Af þeim eru 17 ósakhæfir og 19 sakhæfir en þeir síðarnefndu dvelja að jafnaði miklu skemur inni. Tíu ósakhæfir hafa fengið afléttingu öryggisgæsludóms og hefur enginn þeirra brotið af sér eftir það. Unnið er að því að bæta geðlæknisþjónustuna á Suðurlandi og er loks í sjónmáli að úr því máli rætist en ekki er unnt að greina nánar frá því að svo stöddu.