Röskun vegna framkvæmda

Næstu tvær til þrjár vikur verður talsverð röskun á þjónustu og starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi vegna framkvæmda.Nú er komið að því, að nýbyggingin, sem risin er vestan við heilbrigðisstofnunina, verður tengd eldri byggingunni.  Í þessari viku verður byrjað á að tengja tengigang frá 2. hæð nýbyggingarinnar inn í setustofn á 2. hæð í eldri byggingu.  Í næstu viku verður síðan unnið að tengingu á 1. hæð og loks verður nýbyggingin tengd í kjallara í vikunni þar á eftir.  

Þessar óhjákvæmilegu tengingar á eldri og nýju byggingunum munu valda mikilli röskun á starfsemi stofnunarinnar næstu vikurnar.  Talsverður hávaði mun fylgja þessum framkvæmdum, þar sem saga þarf steinsteypta bita milli glugga í eldri byggingunni á öllum þremur hæðunum.   Loka þarf setustofunni á 2. hæð að hluta, færa símavaktina á 1. hæð og loka kapellunni þar til ný kapella verður tilbúin við tengigang í kjallara nýbyggingarinnar.


Þeir sem þurfa að hafa samband eða koma á heilbrigðisstofnunina á Selfossi næstu daga eru vinsamlegast beðnir um að sýna þessum nauðsynlegu framkvæmdum þolinmæði og biðlund.  Ekki er hægt að komast hjá þessum framkvæmdum til að tengja byggingarnar saman.   Reynt verður að flýta þeim eins og kostur er.  Þegar þær verða afstaðnar opnast tenging á öllum hæðum inn í nýtt og glæsilegt húsnæði.   Nýtt anddyri, afgreiðsla, símavakt og biðstofa á 1. hæð, ný kapella i kjallara og setustofan á 2. hæð opnast inn á glæsilegan tengigang.