Ristilspeglun

Upplýsingar
Hér er um að ræða rannsókn á ristli til skoðunar á útliti og ástandi hans að innan. Rannsóknin er framkvæmd með löngu    sveigjanlegu speglunartæki sem sett er upp í endaþarm og síðan þrætt upp í ristilinn.
Unnt er að taka sýni úr slímhúð og fjarlægja sepa ef þeir finnast.
Mjög mikilvægt er að undirbúningur sé góður og er þar átt við að ristill sé hreinsaður út með lyfjum og/eða skolaður með stólpípum og skal fara eftir fyrirmælum læknis í því efni.Fyrir rannsóknina eru gefin lyf sem verka bæði róandi og verkjastillandi.
Legið er á vinstri hlið og speglunartækið sett upp um endaþarm og síðan þrætt upp í ristilinn sem oft er langur og bugðóttur. Til að koma tækinu þessa erfiðu leið þarf að dæla inn lofti. Þetta veldur samdráttarverkjum og þrýstingi sem auðvelt er að ráða bót á sé lækni sagt frá því.

Rannsóknin tekur frá 30-60 mín. eða lengur ef slímhúðarsepar eru fjarlægðir.


Undirbúningur
Daginn fyrir rannsókn má bara drekka tæra vökva. (Sjá baksíðu) Kaupið í lyfjaverslun:  
2 flöskur af Phosphorali 45 ml .
Daginn fyrir speglun kl.18:00 á að byrja að drekka Phosphoral. Þynnið innihald einnar flösku af Phosphoral 45 ml í hálfu glasi, 120 ml af köldu vatni.
Drekkið til viðbótar a.m.k. 1 glas af köldu vatni, 240 ml strax á eftir og síðar a.m.k. 3 glös 2  klukkustundum fyrir svefn.
Rannsóknardaginn milli kl.08:00 og 09:00 á að drekka eina flösku af Phosphoral, 45 ml þynnt í hálfu glasi, 120 ml af köldu vatni..


Tært fljótandi fæði má neyta báða dagana, en ekki má drekka tæra vökva 2 klst. fyrir rannsókn.


Hreyfing eykur tæmingarþörfina og því er gott að ganga um gólf meðan á drykkju stendur.
Í sambandi við speglunina verður sett upp nál í handarbakið og í hana gefið róandi lyf og verkjalyf.
Ekki má aka ökutæki meðan áhrif lyfjanna vara í 12-24 klukkustundir.


Eftir rannsóknina er nauðsynlegt að hvílast um stund.
Ef slímhúðarsepar eru fjarlægðir þarf aðgát vegna blæðingarhættu.


Ef einhverjar frekari spurningar koma í huga má leita svara hjá lækni.


Mikilvægt:
Ef lyf eru gefin má ekki aka bifreið fram eftir degi.
Mikilvægt er að hætta á blóð-þynningarlyfjum 7 dögum fyrir    aðgerð eða rannsókn—þó alltaf í samráði við lækni
Munið eftir afsláttarkortinu
Ef þú getur ekki mætt í rannsóknina á uppgefnum tíma þá er mjög mikilvægt að tilkynna forföll til læknaritara HSS í síma 482 1300.


Dæmi um fljótandi fæði:

Tært fitulítið soð. Soð af teningum
Síaðar tærar grænmetissúpur
Síaðar ávaxta– eða saftsúpur
Hafraseyði eða hrísgrjónaseyði
Ávaxtahlaup (jelló)
Síaðir ávaxtasafar
Eplasafi
Frosnir ávaxtasafar (frostpinni)
Te og kaffi með sykri eða hunangi
Allir gosdrykkir