Ríkisstjórnin fær til skoðunar breytingar á húsnæði HSu og ráðherrar í heimsókn á HSu

Guðbjartur Hannesson og Jóhanna SigurðardóttirRíkisstjórn Íslands hélt ríkisstjórnarfund á Hótel Selfossi 25. janúar.  Á fundinum var m.a. farið yfir fyrirhugaðar endurbætur á eldra húsnæði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.  Er ætlunin að undirbúningur fari fljótlega í gang. Heildarkostnaður verksins er áætlaður 1360 miljónir og að verkið verði unnið í fjórum áföngum og eru áætluð verklok árið 2017.  Fyrirliggjandi fjármagn fyrir árið 2013 er 370 miljónir.  Núverandi stærð eldri hluta hússins er 3027 m², en verður að framkvæmdum loknum 5769 m².  Reynt verður að halda fullri starfssemi í húsinu þrátt fyrir framkvæmdir.

 

Nánar má sjá um fyrirhugaðar breytingar í skjali sem velferðarráðherra lagði fyrir ríkisstjórnina, sjá hér.

 

Að ríkisstjórnarfundi loknum, kom velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson í stutta heimsókn á HSu og fljótlega á eftir honum kom forsetisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir einnig í heimsókn.  Jóhanna gekk með stjórn HSu um húsið og heilsaði m.a. uppá heimilisfólk Ljósheima og þáði kaffi hjá starfsfólki.  Þar hafði hún sérstakan hug á að hitta 100 ára afmælisbarnið hana Fannýu Sigurðardóttur og átti með henni smá spjall.  Vel fór á með þeim, enda báðar jafnaðarmenn.