Réttargeðdeildin á Sogni

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu um málefni Réttargeðdeildarinnar á Sogni vill undirritaður vekja athygli á, að Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur haft umsjón með rekstri deildarinnar. Hefur stofnunin átt náið samstarf við Heilbrigðisráðuneyti og embætti Landlæknis um rekstur og starfsemi deildarinnar.


Síðustu ár hefur verið lögð mikil áhersla á að styrkja starfsemi deildarinnar með bættri þjónustu, ráðningu starfsfólk og gerð tillagna um bætta aðstöðu og stærra húsnæði. Geðlæknir og iðjuþjálfi voru ráðnir til starfa, hjúkrunarþjónusta elfd og gæslumenn hafa sótt viðbótarnám sem félagsliðar.


Síðustu 3 – 4 ár hefur ítrekað verið auglýst eftir geðlæknum til starfa. Þeir virðast hafa haft öðrum merkilegri störfum að sinna. Síðla vetrar varð loks ljóst, að frá og með 1. september nk. verður hægt að hefja uppbyggingarstarf í geðheilbrigðisþjónustu á Suðurlandi. Yfirlæknir geðlækninga á Suðurlandi kemur til starfa, nýr iðjuþjálfi með mikla reynslu af þvi sviði kemur til starfa á sama tíma. Umsóknarfrestur er að líða varðandí ráðningu geðhjúkrunarfræðings, sem gert er ráð fyrir að komi til starfa 1. september. Með ráðningum framangreindra sérfræðinga er gert ráð fyrir, að loks verði hægt að veita Sunnlendingum geðheilbrigðisþjónustu í heimabyggð.


Ómaklegar og órökstuddar árásir á þjónustu Réttargeðdeildarinnar og starfsmanna hennar vegna meints misferlis fyrrverandi yfirlæknis deildarinnar eru með öllu tilhæfulausar. Skv. upplýsingum frá Landlækni hefur enginn af starfsmönnum Réttargeðdeildarinnar eða Heilbrigðisstofnunar Suðurlands verið grunaður um aðild að meintu misferli. Það hefur átt sér stað utan deildarinnar og er deildinni með öllu óviðkomandi.


Varðandi gagnrýni fyrrverandi skjólstæðins deildarinnar, sem ákveðnir fjölmiðlar hafa hampað gagnrýnislaust, þá er vert að vekja athygli á, að frá opnun deildarinnar fyrir 15 árum hafa á fimmta tug sjúklinga innritast á réttargeðdeildina, þar af um helmingur ósakhæfur. Núna eru 6 sjúklingar á deildinni. Aðrir hafa útskrifast og enginn þeirra framið afbrot aftur. Verður það að teljast afar góður árangur við meðferð mjög veikra einstaklinga, oft við erfiðar aðstæður. Á starfsfólk deildarinnar heiður skilinn fyrir slíka þjónustu.


Skjólstæðingar deildarinnar eru mjög veikt fólk með alvarlega geðsjúkdóma, sem hafa valdið alvarlegum einkennum og afbrotum. Málefni hvers og eins er mjög viðkvæmt og margir eiga um sárt að binda, bæði fjölskyldur sjúklings og fórnarlamba. Meðferðin er því mjög erfið, viðkvæm og tekur langan tíma. Ásakanir um illa meðferð eru því í engu samræmi við framangreindan árangur við að koma þessum einstaklingum út í þjóðfélagið á ný


Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.