Rannsóknadagur á HSu

Þann 12. nóv. sl. var haldinn á HSu svokallaður rannsóknadagur og er þetta í annað skipti á árinu. Læknar og lífeindafræðingar stofnunarinnar áttu veg og vanda að öllum undirbúningi.


Fengnir voru fyrirlesarar frá Landspítala (LSH) og Landlæknisembættinu, þeir Karl Kristinsson, yfirlæknir á sýkladeild LSH og Þórólfur Guðnason, yfirlæknir á sóttvarnasviði Landlæknisembættisins. Þá var Kolbrún Káradóttir, yfirlífeindafræðingur HSu með erindi þar sem hún kynnti niðurstöður rannsókna síðustu mánaða á HSu.

Karl ræddi sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi á Íslandi og sýklalyfjanotkun á Suðurlandi. Síðan ræddu þeir Karl og Þórólfur um hinar ýmsu sýkingar og lyfjaval við þeim, s.s. bráða miðeyrnabólgu, skútabólgu, hálsbólgu, lunganbólgu og þvagfærasýkingar. Farið var yfir rannsóknarvenjur lækna, sýklalyfjanotkun og hættu á ónæmum sýklum við ofnotkun sýklalyfja. Þá var meðferð við algengum sjúkdómumrædd og farið yfir nýjungar í meðferð við þeim.

Læknar og lífeindafræðingar stofnunarinnar fjölmenntu á þessa fræðsludagskrá.