Ráðgjöf og stuðningur við krabbameinssjúka á HSU

Svanhildur Ólafsdóttir formaður Krabbameinsf. Árn., Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, og Díana Óskarasdóttir forstjóri HSU, skrifa undir samstarfssamninginn. Mynd: DFS.IS/Gunnar Páll Pálsson.

Þann 5. nóvember sl. var undirritaður á Heilbrigðisstofnun Suðurlands samstarfssamningur milli Krabbameinsfélagsins, Krabbameinsfélags Árnessýslu og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands um ráðgjöf fyrir sjúklinga í krabbameinsmeðferðum.

 

Ráðgjafar frá Krabbameinsfélaginu munu nú framvegis koma á HSU Selfossi vikulega og veita ráðgjöf.  Hluti af söfnunarfé Bleiku slaufunnar 2017 var varið í að efla ráðgjöf og stuðning á landsbyggðinni og nýtur HSU nú góðs af því. Allir þeir sem sjá hag sinn í nýta þessa þjónustu, sjúklingar eða aðstandendur, eru hvattir til að leita til HSU eftir þjónustunni.

 

Meðferð við krabbameinum hófst á HSU haustið 2018 í kjölfar þess að ráðinn var til stofnunarinnar sérfræðingur í krabbameinslækningum, Sigurður Böðvarsson.  Það var gríðarlegur fengur fyrir stofnunina að fá krabbameinslækni til starfa og geta hafið meðferðarstarf á svæðinu. Fram að þeim tíma höfðu krabbameinssjúklingar þurft að sækja alla meðferð til Reykjavíkur.  Eftir að merferðarþjónustan hófst hefur verið gríðarlegur vöxtur í aðsókn enda mikill léttir fyrir sjúklinga að þurfa ekki lengur að fara yfir heiðina til að sækja sér meðferð, nóg er álagið samt. Fljótlega kom í ljós að mikil þörf var einnig á stuðningi og ráðgjöf fyrir krabbameinssjúklinga á svæðinu.  

 

Krabbameinsfélag Árnessýslu hefur unnið ötulega að því að fá þjónustuna í heimabyggð að sögn Svanhildar Ólafsdóttur, formanns Krabbameinsfélags Árnessýslu og því er það mikið fagnaðarefni að fá nú ráðgjafar- og stuðningsmeðferð einnig á HSU og geta boðið heildstæða þjónustu. Nú verður því hægt að bjóða upp á viðtal fyrir alla sjúklinga sem eru að koma í upphaf meðferðar og síðan ræðst það eftir óskum og þörfum hvers og eins hversu oft þeir vilja koma og sækja þessa þjónustu og það er líka mjög mikilvægt fyrir meðferðaraðila á HSU að fylgjast með líðan sjúklinganna og grípa þá inní þegar þess er þörf.