Pössum vel upp á hvert annað

Hermann Marinó Maggýjarson er yfirmaður sjúkraflutninga á HSU.  Í tilefni þess að 112 dagurinn var haldinn hátíðlegur um allt land var birt viðtal við Hermann í Fréttablaðinu í gær.

 

Á stóru starfssvæði sjúkraflutninga HSU hefur mikið gengið á undanfarið og álag á viðbragðsaðila mjög mikið. Á því svæði hefur umferðin aukist gríðarlega, því er rauði þráðurinn að hans sögn að passa vel upp á hvort annað.

 

„Ég er staðsettur á Selfossi og við erum með allt Suðurlandið undir, allt frá Litlu kaffistofunni og að Höfn í Hornafirði, svo það er stór hluti af hringveginum sem er í okkar umdæmi,“ segir Hermann Marinó Maggýjarson, yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi. „Umferðin er gríðarleg á þessu svæði, ferðamenn eru fjölmennir og mörg stór slys hafa því miður orðið í okkar umdæmi.“ Hann segir ferlið yfirleitt það sama. „Neyðarlínan fær tilkynningu um slysið og sendir okkur boð og þá er fyrsta skrefið hjá okkur að meta slysið, hversu margir eru í því, hveru alvarlegt er það og sem er kannski mest knýjandi, hvar? Vegalengdirnar eru okkar óvinur. Út frá þeim upplýsingum sem við höfum metum við hvað við þurfum marga bíla og hvort við þurfum að kalla út aðstoð frá Reykjavík.“

 

Hann segir mjög góða samvinnu hjá viðbragðsaðilum lykilatriði. „Allir leggjast á eitt að leysa þessi erfiðu verkefni, slökkviliðið, björgunarsveitirnar og lögreglan. Á Suðurlandi hefur menntunarstigið í sjúkraflutningum aukist gríðarlega síðustu árin og við erum núna með níu bráðatækna hér ásamt því að vera með mjög reyndan og góðan mannskap á helstu þéttbýlisstöðum, Höfn, Kirkjubæjarklaustri og Vík, þar sem fólk getur lent í því að glíma við þessi stóru slys eitt, jafnvel lengi áður en hjálp kemur.“

 

Hann segir alltaf hafa verið vel hugað að hópslysaáætlunum og almannavarnakerfinu á Suðurlandi. „Með auknum fjölda útkalla hefur menntunarstigið aukist og reynslan líka. Það er vont þegar mikið er að gera hjá okkur og slysin á þessu svæði eru því miður orðin allt of mörg en á móti kemur að þá verður til reynsla sem skiptir gríðarlegu máli í utanspítalaþjónustu.“ Hann segir það mikla lífsreynslu að koma að stóru og alvarlegu slysi. „Stóru rútuslysin eru erfið fyrir þá sem eru fyrstir á vettvang. Það muna allir eitthvert eitt slys sem situr í þeim og gleymist ekki svo glatt. Stórslys reyna mjög á, bæði á fólk, samstarf viðbragðsaðila og í raun á allt heilbrigðiskerfið.“

 

Sem betur fer gefst viðbragðsaðilum kostur á víðtækum stuðningi. „Við veitum félagastuðning, setjumst niður og ræðum málin og það er mikilvægt. Svo eru haldnir rýnifundir þar sem allir viðbragðsaðilar koma saman og fara yfir atburðinn, það hjálpar mikið og við höfum aðgang að sálfræðingum. Þá veitir Rauði krossinn góðan stuðning, bæði við þá sem lenda í slysunum og viðbragðsaðila. Rauði þráðurinn er að við pössum hvort annað.