Pistill á föstudaginn langa

 

 

 

 

 

 

 

Kæra samstarfsfólk.

Þegar ég ólst upp var föstudagurinn langi frábrugðinn öðrum dögum að því leyti að ýmsir hversdagslegir hlutir voru lagðir til hliðar til að virða helgi dagsins. Oftast var þó tækifærið nýtt til að njóta útveru eða fara á skíði. Í minningunni var oftast allt á kafi í snjó þar sem ég dvaldi oft fyrir norðan og glaðasólskin. Á mínu æskuheimili í Reykjavík hefði ekki verið viðeigandi þennan dag að skreppa út í búð eftir nauðsynjum.  Á föstudaginn langa var ekki spilað, sem annars var gert mjög oft, og yfirleitt hafður einfaldur matur sem mótvægi við komandi hátíð á páskum.  Ég verð þó að viðurkenna að með tímanum hefur fjarað undan þessum siðum hjá mér.  Þó er það svo að á föstudaginn langa finnst mér ómissandi að fara í kirkju og hlusta á Passíusálmana lesna, njóta útiveru og borða góðan fisk. 

Við eigum sjálfsagt öll okkar minningar og okkar siði sem tengjast páskum.  Óháð trúarafstöðu okkar þá álít ég það holt að við skulum eigum daga sem eru bæði helgaðir sorginni og svo sigri lífsins. Það er gott að eiga daga sem við megum verja til þess að minnast þeirra sem við syrgjum og eins að geta fagnað því sem lífið gefur. 

Þessi viðfangsefni mannlegs lífs eru einmitt það sem við erum að fást við á hverjum degi í heilbrigðisþjónustunni, með einum eða öðrum hætti.  Við njótum þeirra forréttinda að fá að starfa með öðrum og fyrir aðra frá upphafi lífs til lífsloka.  Þannig erum við partur af gleði og sorg hjá örðum.  Það er vandasamt verk sem við lítum stundum á sem hversdagslegan hlut af því að þetta er vinnan okkar.  Hins vegar er það mitt mat að á HSU rækjum við þetta hlutverk okkar af alúð og keppum að því að eiga traust þeirra sem til okkar leita. Við sem störfum á HSU erum hópur sem viljum vinna af fagmennsku og af virðingu fyrir lífi og heilsu þeirra sem leita eftir þjónustu hjá okkur.  Ég vil því ekki þreytast á að segja ykkur hvað ég er stolt af þessum frábæra hóp sem ég fæ að starfa með við hin ýmsu krefjandi verkefni.

Ég er þakklát ykkur sem standið vaktina yfir páskana og óska okkur öllum gleðilegrar páskahátíðar.

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU

14. apríl 2017