Páskakveðja forstjóra

28. mars 2018

 

 

Kæra samstarfsfólk.

 

Í lok síðustu viku tók ég, ásamt öðrum í framkvæmdastjórn HSU þátt í vorfundi Landsambands heilbrigðisstofnanna sem fór fram á Egilsstöðum. Þar komu saman stjórnendur í heilbrigðisþjónustunni ásamt fulltrúum frá Velferðarráðuneytinu og Embætti landlæknis. Á fundinum gafst tækifæri til að ræða ýmis aðkallandi mál, fara yfir stöðu mála og ekki síður að miðla því sem hefur skilað árangri í framþróun í heilbrigðisþjónustu. 

 

Meðal annars var farið yfir áætlun um gæðaþróun heilbrigðisþjónustunnar til næstu ára og kynnt nýtt gæðauppgjör heilbrigðisstofnanna.  Það er spennandi verkefni sem krefst þess að við tökum fullan þátt og bætum enn frekar skráningu til að geta tekið út áreiðanlegar upplýsingar um starfsemina hjá okkur. Í hlutaúttekt á heilsugæslusviðinu HSU sem gerð var á síðasta ári fengum við ábendingar um það frá Embætti landlæknis að mikilvægt væri að skilgreina gæðavísa, s.s. biðtíma eftir þjónustu, niðurstöður þjónustukannanna og árangur meðferðar og hafa sýnilega starfsmönnum og ekki síður þjónustuþegum.  Við viljum gjarnan fylgja þessum ábendingum eftir og höfum vilja til að mæla gæði þjónustunnar hjá okkur, en til þess að geta gert það þurfum við tíma og mannafla til slíkra úttekta. 

 

Á fundinum var einnig farið yfir kosti og galla við nýtt fjármögnunarlíkan heilsugæslunnar á höfuðborgasvæðinu og hvernig það hefur reynst eftir fyrsta ár innleiðingarinnar og hvaða lagfæringar þarf að gera á líkaninu.  Reiknilíkan heilbrigðisþjónustunnar á landsbyggðinni hefur hins ekki verið uppfært í allmörg ár og því er það sem slíkt hætt að þjóna tilgangi sínum meðan það er ekki uppfært.  Kostnaðargreining á heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni er aðkallandi verkefni og mikilvægt að íbúar á landsbyggðinni búi við sömu framlög til heilbrigðisþjónustu óháð búsetu á landinu.  Mikill meirihluti fés til sérfræðiþjónustu á Íslandi rennur til höfuðborgarsvæðisins og er ekki í eðlilegu hlutfalli við dreifingu byggðar í landinu. Forstjórar, framkvæmdastjórar lækninga og framkvæmdastjórar hjúkrunar hjá opinberrum heilbrigðisstofnunum munu funda með Velferðarráðuneytinu eftir páska og ljúka vinnu við tillögugerð um sérfræðiþjónustu lækna á landsbyggðinni, sem er mjög spennandi og þarft verkefni að ljúka.

 

Jafnframt var farið yfir nýja tegund samskipta í heilsugæslunni og í heilbrigðisráðgjöf. Innan tíðar munum við kynna starfsfólki HSU og íbúum á Suðurlandi nýjungar í Heilsuveru sem snúa að beinum rafrænum samskiptum við heilbrigðisstarfsmenn og verða til þess að bæta þjónustu og flýta miðlun upplýsinga til sjúklinga, t.d. um niðurstöður rannsókna og slíkt.

 

Það er ljóst að við fjölmörg spennandi verkefni bíða okkar á þessu ári og viljum við fá sem allra flest ykkar til þátttöku.  Margt hefur áunnist hjá okkur frá sameiningu og það er ótrúlega mikils virði að starfa á heilbrigðisstofnun þar sem nánast allar heimilaðar stöður eru fullsetnar.  Enn heldur starfsemin áfram að vaxa með tilheyrandi áskorun fyrir okkur öll. Samvinna og fagmennska hefur hingað til verið okkar lykill að árangri og ég bind vonir við að svo verði áfram.

 

Nú fer í hönd páskahelgin með tilheyrandi fríum og ferðalögum. Við sem þekkjum vaktavinnu af eigin raun vitum að þegar aðrir eiga frí er oft mikið að gera hjá okkur.  Ég vona að þið sem standið vaktina nú um helgina eigið farsæla vinnutörn framundan.

 

Með ósk um gleðilega páska,

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.