Orðsending vegna framkvæmda á Selfossi

9. janúar 2016

 

Senn munu hefjast miklar breytingar á húsnæði HSU á Selfossi á 1. hæðinni. Stærstu breytingarnar munu fela í sér endurnýjun húsnæðis norðurálmu með stækkun rannsóknarstofu og myndgreiningar og gagngerar breytingar á eldhúsi og matsal starfsmanna.  Áætlað er að verktakar hefji störf í kringum 23. janúar n.k. Byrjað verður á breytingum á eldhúsi því næst hjá rannsókn og myndgreiningu og að lokum unnið að stækkun á móttöku í anddyri.  Því er ljóst að framkvæmdir munu standa yfir fram eftir árinu. Endurbætur á suðurálmu á bráðamóttöku á Selfossi eru áætlaðar árið 2018.

 

Nú meðan á framkvæmdum stendur má gera ráð fyrir að eldhús sjúkrahússins verði lokað í 3-4 mánuði en unnið er að undirbúningi ráðstafanna sem grípa þarf til á meðan. Nánari tilkynningar munu berast frá framkvæmdastjórn um útfærslu á fæði til sjúklinga og starfsmanna.

 

Það má því gera ráð fyrir að á þessu tímabili muni verða mikil röskun á starfsemi eldhússins og á tímabilum má búast við truflun af völdum hávaða fyrir starfsmenn og sjúklinga. Ég vil því biðla til allra um að sameinast um að sýna þessum framkvæmdum umburðarlyndi. Ég vil jafnframt sýna því skilning að framkvæmdirnar  munu mögulega valda okkur tímabundnum óþægindum, en að þeim loknum munum við fá stórbætta aðstöðu bæði fyrir sjúklinga og starfsmenn.

 

 

Með góðri kveðju,

Herdís Gunnarsdóttir

Forstjóri HSU