Opið hús 17. júní hjá Björgunarmiðstöðinni

Það hefur verið í nógu að snúast hjá Sjúkraflutningamönnum og öðrum í Björgunarmiðstöðinni undanfarna daga.  Á föstudag 15. júní var Björgunarmiðstöðin formlega vígð og þar mætti fjöldi boðsgesta til vígslu hússins.  Sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson var vígslustjóri  og blessaði húsið, kirkjukór Selfosskirkju söng, tónlistaratriði voru flutt af ungu og hæfileikaríku tónlistarfólki og nokkrir mætir menn tóku til máls og fluttu heillaóskir.  Að lokum var gestum boðið uppá kaffi og dýrindis tertu.

 

17. Júní var síðan opið hús fyrir almenning í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi. Þar sýndu sjúkraflutningamenn Hsu tæki sín og tól, ásamt Brunavörnum Árnessýslu og Björgunarfélagi Árborgar. Á planinu við Björgunarmiðstöðina var svo sýnt hvernig björgun úr bílflökum fer fram. Inni bauð félag Sjúkraflutningamanna í Árnessýslu og félag slökkviliðsmanna í Árnessýslu upp á grillaðar pylsur, ásamt því að sjúkraflutningamenn sýndu fólki húsnæðið og fræddu það um í hverju starf sjúkraflutningamanna er fólgið. Um 400 pylsur voru grillaðar ofan í mannskapinn og þær runnu ljúft niður með ískaldri Kókómjólk.

Björgunarfélag Árborgar var með kassaklifur og hoppukastala sem vakti mikla athygli, sérstaklega yngri kynslóðarinnar.