- Fylgið útivistarreglum
- Yngstu skólabörnin þurfa u.þ.b. 9 klst. svefn yfir nóttina
- Unglingar þurfa u.þ.b. 10 klst. svefn yfir nóttina
- Að sofa á daginn kemur ekki í staðinn fyrir tapaðan nætursvefn.
- Lengd og gæði nætursvefns hefur áhrif á námsgetu og minni
- Úrvinnsla úr þeim upplýsingum sem við höfum fengið yfir daginn fer fram í svefni
Svefninn er nauðsynlegur fyrir vöxt og þroska barna og unglinga.
Góður svefn er öllum lífsnauðsynlegur til að geta tekist á við viðfangsefni dagsins. Yngstu skólabörnin þurfa að sofa í kringum 9 tíma á nóttu en þegar komið er fram á unglingsárin eykst svefnþörfin um u.þ.b. klukkustund vegna þess aukna álags sem fylgir gelgjuskeiðinu.
Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að lengd og gæði nætursvefns hefur áhrif á námsgetu og minni. Í svefni er verið að rifja upp og vinna úr þeim upplýsingum sem við höfum fengið yfir daginn, þessar upplýsingar festast í minninu. Ónæmiskerfið virkjast þegar við sofum og því er svefninn nauðsynlegur til að auka mótstöðu gegn veikindum og fyrir vöxt og þroska unglingsins. Á unglingsárunum eiga sér stað miklar hormónabreytingar í líkamanum. Mikill hluti þeirra hormóna framleiðir líkaminn á næturnar og er sú framleiðsla háð góðum nætursvefni. Að sofa á daginn kemur því ekki í staðinn fyrir tapaðan nætursvefn.
Góðar svefnvenjur barna og unglinga stuðla að hamingjusamara lífi, meiri ábyrgð á heilsunni, hollari matarvenjum, færni til að takast á við streitu og auka líkurnar á reglulegri hreyfingu.
Nokkur einföld ráð fyrir foreldra sem komið geta að notum við að hjálpa börnum og unglingum að ná betri nætursvefni.
- Koma á reglulegum svefntíma þ.e. sofna og vakna á svipuðum tíma á hverjum degi. Ef börn og unglingar fá nægjanlegan svefn á virkum dögum þurfa þau ekki að sofa lengur um helgar.
- Ef börn og unglingar eru mjög þreytt á daginn þá getur hjálpað að fá sér stuttan lúr. Þó ekki lengur en klukkustund, þá gæti það reynst þeim erfitt að sofna á kvöldin.
- Fylgið útivistareglum alla daga vikunnar því þær taka mið að svefnþörf barna. Gott er að börn og unglingar hafi tíma til rólegrar stundar áður en þau fara í rúmið.
- Takmarka tölvunotkun og sjónvarpsáhorf seint á kvöldin. Bæði sjónvarp og tölvuleikir örva heilann og trufla þannig svefn.
- Gott samband foreldra við börn og unglinga stuðlar að góðri líðan. Áhyggjur og streita geta valdið ónógum nætursvefni. Með því að vera í góðu sambandi við börnin og unglingana og reyna að skilja tilfinningar þeirra og líðan getum við stuðlað að aukinni hugarró og betri líðan hjá þeim.
- Dagleg hreyfing og hollt mataræði er gott bæði fyrir svefninn og heilsuna. Hvetjið börn og unglinga til að stunda íþróttir eða daglega hreyfingu í frítímanum. Ekki er gott að borða þunga fæðu eða sykur fyrir svefninn.
Í lokin viljum við minna foreldra og forráðamenn á að gott fordæmi eykur áhrif góðra ráða.
F.h Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Jónína Lóa Kristjánsdóttir