Öldrun í nútímasamfélagi

Matta (2)Íslenskt samfélag stendur nú á tímamótum. Öldruðum mun fjölga hratt á næstu árum, 75 ára og eldri mun fjölga um 35% frá árinu 2012 til 2020 og hlutfall 67 ára og eldri mun fara úr því að vera 10,3% í dag í 18,4% á árinu 2040. Stóra spurningin er því hvort Ísland sé í stakk búið til að þjónusta allan þennan fjölda en þjónustuþegum í öldrunarþjónustu mun fjölga um 2-3% ár hvert á næstu árum.

Það er opinber stefna yfirvalda á Íslandi í dag að gera öldruðum kleift að búa eins lengi heima og mögulegt er. Öll höfum við þær væntingar að geta búið á okkar eigin heimili út ævina. Á hjúkrunarheimilum á Íslandi er fólk nú mun veikara en áður og er meðal dvalartími þar um 2,5 ár. Heilbrigðisþjónustan hefur reynt að bregðast við þessu með aukinni þjónustu heim til fólks og á síðustu árum hefur samþætting heimaþjónustu milli heilbrigðiskerfis og sveitarfélaga skilað nokkrum árangri á Hornafirði, Akureyri og á Höfuðborgarsvæðinu.

Við aukinn aldur minnkar vöðvastyrkur, liðleiki og jafnvægi verður lélegra sem dregur úr hreyfifærni. Einnig minnkar virkni skynfæra s.s. sjón, heyrn, bragðskyn, minni o.fl. Á þessa þætti er hægt að hafa áhrif með reglubundinni hreyfingu og virkni. Ef ekkert er að gert hafa aldurstengdar breytingar áhrif á lífsgæði fólks.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) hefur listað þá þætti sem einkenna samfélag sem hugar að þörfum aldraðra:

„Samfélag sem gerir grein fyrir fjölbreytileika eldri einstaklinga, ýtir undir þátttöku þeirra á öllum sviðum samfélagsins, ber virðingu fyrir ákvörðunum þeirra og vali á lífstíl, og gerir ráð fyrir mismunandi aldurstengdum þörfum og óskum“

Samfélag sem gerir ráð fyrir öldruðum veitir samfélagslegan stuðning og góða heilsutengda þjónustu. Samskipti og upplýsingar taka mið af þörfum aldraðra. Það gerir ráð fyrir samfélagslegri þátttöku og vinnu. Þar er borin virðing fyrir öldruðum og gert ráð fyrir félagslegri þátttöku. Boðið er upp á húsnæði við hæfi og samgöngur. Útisvæði og byggingar taka einnig mið af þörfum aldraðra og ber þar að hafa í huga hönnun bygginga, göngustíga og bekkja en nauðsynlegt er að bekkir séu til að mynda hafðir með örmum. Til að draga úr þjónustuþörf aldraðra þarf að huga að þessum þáttum því með aukinni virkni aldraðra í samfélaginu eykst líkamleg virkni og hreysti og fólk getur búið lengur heima.

Það er því mikil áskorun fyrir sveitarfélög, heilbrigðisstofnanir og aðrar ríkisstofnanir að endurskoða verklag hvað varðar skipulag, hönnun, þjónustu og fleira sem talið er upp hér að ofan. Það verður ávallt að hafa að leiðarljósi þá hugsun að hvetja til virkni, líkamlegrar sem félagslegrar. Öldruðum fjölgar hratt og þjónustuúrræði fyrir þennan aldurshóp eru af skornum skammti á Íslandi, því þarf að draga úr þjónustuþörf ásamt því að læra að nýta alla tæknimöguleika nútímans.

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Matthildur Ásmundardóttir, BSc í sjúkraþjálfun, MSc í íþrótta- og heilsufræði.
Framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Hornafirði