Offita og ofþyngd – getur heilsugæslan hjálpað?

Það er ekkert nýtt að heyra það að íslendingar eru þyngstir meðal norðurlandaþjóða og jafnvel meðal Evrópuþjóða. En eru þetta ekki fréttir sem við þurfum að taka alvarlega?  Hvað getum við gert sem einstaklingar til að taka ábyrgð á eigin heilsu og heilsu barnanna okkar? Ég tel að hver og einn þurfi að líta í eign barm og á sína fjölskyldu.

 

Þeir sem eru komnir í ofþyngd eru með líkamsþyngdarstuðul milli 25 -30.  Þeir sem eru í offitu eru með líkamsþyngdarstuðul yfir 30. Líkamsþyngdarstuðull (LÞS, e. „body mass index“ eða BMI) er reiknaður út frá upplýsingum um hæð og þyngd. Líkamsþyngdarstuðullinn hentar ágætlega til þess að mæla breytingar á holdafari hópa á tilteknu tímabili en er ekki eins vel fallinn til að mæla holdafar einstaklinga þar sem hann tekur ekki tillit til mismunandi líkamsbyggingar og greinir ekki á milli fitu og annarra vefja líkamans.   Þess vegna megum við ekki vera of upptekin af þessum tölum.  Að vera yfir kjörþyngd segir okkur það að við erum komin með amk einn áhættuþátt fyrir auknum líkum á lífstílsjúkdómum eins og sykursýki, hjarta og æðasjúkdómum og krabbameini t.d.

 

Þeir sem að breyta lífstíl sínum og  létta sig ættu að meta árangurinn í bættri heilsu og meiri vellíðan fremur en hve mörg kíló hafa tapast.  Árangur má skilgreina sem aukin lífsgæði, meira sjálfstraust, meiri atorku, bætta heilsu almennt eða  hindrun á frekari þyngdaraukningu. 5-10% þyngdartap getur bætt heilsuna umtalsvert.

 

Orsakir ofþyngdar og offitu geta verið margvíslegar og mikilvægt er að ráðast í rót vandans heldur en að grípa til skyndilausna sem sjaldnast bera varanlegan árangur.  Ekki má gleyma því að offita er langvinnur sjúkdómur sem þarf stöðugt að hafa eftirlit með líkt og aðrir sjúkdómar.  Þeir sem eru með háan blóðþrýsting mæta í blóðþrýstingseftirlit.  Þeir sem eru með offitu ættu að mæta í eftirlit hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi og fylgjast með þyngdinni.

 

Líkamsþyngd er oft viðkvæmt umræðuefni.  Margir skammast sín eða óttast ásökun og fordóma.  Fjölmiðlar setja oft umfjöllun um þessi mál fram á þann hátt að líta megi á offitu sem félagslega niðurlægingu. Holdarfarsfordómar finnast víða í samfélaginu, í skólakerfinu, heilbrigðiskerfinu og atvinnulífinu.

 

Á heilsugæslunni á Selfossi er starfrækt hjúkrunarmóttaka sem sinnir þeim sem þurfa á aðstoð að halda við að breyta lífstíl sínum og léttast. Móttakan er hugsuð fyrir þá sem eru með líkamsþyngdarstuðul yfir 30 og/eða komnir með lífstílssjúkdóma eins og sykursýki, stoðkerfisverki, hjarta og æða sjúkdóma ofl.  

 

Í vetur mun Bjarnheiður Böðvarsdóttir Hjúkrunarfræðingur sinna móttökunni. Hægt er að fá tíma með því að hafa samband við hana.  Einnig er hægt að biðja heimilislækna um tilvísun í móttökuna.

 

 

Fh. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Bjarnheiður Böðvarsdóttir

Hjúkrunarfræðingur, heilsugæslu Selfoss.