Nýtt röntgentæki á leiðinni til Vestmannaeyjar

Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur fest kaup á nýjum röntgenmyndgreiningarbúnaði sem settur verður upp í Vestmannaeyjum á næstu vikum. Röntgenbúnaðurinn er af gerðinni Philips Digital Diagnost C90 high performance. Tækjabúnaðurinn er stafrænt röntgentæki af fullkomnustu gerð og mun hafa jákvæð áhrif bæði fyrir starfsmenn og sjúklinga. Það er óhætt að segja að kominn sé tími á endurnýjun þar sem tækið sem er í notkun í dag er komið vel til ára sinna.
Nýja Philips röntgentækið er með fjarstýrðum búnaði þannig að nú þarf ekki lengur að hreyfa loftlampa með handafli auk þess sem hægt er að hækka og lækka borðið á nýja tækinu þó nokkuð sem er afar þægilegt fyrir sjúklinga. Tækið er fyrirferðaminna en það gamla þannig að það ætti að verða rýmra og betra að athafna sig með t.d. sjúkrarúm og sjúkrabekki sem oft þarf að fara með inn í röntgenstofuna.
Núna stendur yfir hönnun á röntgenstofunni því að mörgu er að hyggja áður en tækjabúnaðurinn verður settur upp. Ganga þarf úr skugga um að raflagnir, loftfestingar og burðarþol standist kröfur sem gerðar eru til húsnæðisins. Jafnframt þarf að uppfylla þau skilyrði sem Geislavarnir Ríkisins gera bæði til húsnæðisins og tækjabúnaðarins. Röntgenstofan þarf að uppfylla ákveðin skilyrði varðandi geislavarnir og tækið þarf að uppfylla öll ákvæði geislavarnareglna. Einnig er mikilvægt að tryggja inntökuleið fyrir tækjabúnaðinn en það getur reynst snúið að koma tækjabúnaðinum inn á röntgenstofuna. Það er mikill undirbúningur í gangi þessa dagana og við bíðum spennt eftir að taka á móti nýja röntgentækinu þegar það kemur til Vestmannaeyja á komandi mánuðum.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri