Nýtt blóðgastæki á bráðamóttöku HSU á Selfossi

Ánægjulegt er að greina frá því að nýtt blóðgastæki hefur verið sett upp á bráðamóttökunni á Selfossi. Tækið er frá Radiometer sem hefur verið brautryðjandi í framleiðslu blóðgastækja frá 1954 og hafa flestar kynslóðir tækja verið í notkun á heilbrigðisstofnunum á Íslandi.

Tækið sem verið er að taka í notkun hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi er er flaggskip Radiometer, ABL 837 (Acid Base Laboratory). Tækið mælir beint 17 mismunandi greiningarþætti og getur reiknað fjölda annarra þátt sem auðvelda greiningu og meðferð alvarlega veikra sjúklinga. Þegar alvarlega veikur sjúklingur þjáist af öndunarfæra- eða efnaskiptaröskun er greining á slagæðablóðgasi lykilatriði til að meta stöðu sjúklingsins, taka viðeigandi greiningarákvarðanir og fylgjast með áhrifum hugsanlegrar meðferðar.

Í blóðgasgreiningu er mælt magn súrefnis (O2), koltvísýrings (CO2) og sýrustig pH í blóði sem og styrkur annarra þátta, eins og raflausna, umbrotsefna og blóðrauða. Mikið veikir sjúklingar eru oft óstöðugir og blóðgasgildi þeirra geta breyst hratt, sem krefst skjótrar íhlutunar umönnunaraðila.

Kennsla og þjálfun starfsmanna stendur yfir og verður tækið brátt komið í fulla notkun.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU