Nýr svæðislæknir sóttvarna í Árborg og uppsveitum Árnessýslu

Víðir Óskarsson yfirlæknir á Bráða- og slysamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi er nýr svæðislæknir sóttvarna  í Árborg og uppsveitum Árnessýslu.

Hann tekur við af Sigurjón Kristinssyni, sem sinnt hefur því starfi síðastliðin ár. Sigurjón fær kærar þakkir fyrir vel unnin störf.

Víðir útskrifaðist sem læknir frá Háskóla Íslands árið 1990. Í kjölfarið stundaði hann sérnám í heimilislækningum í Noregi og starfaði að því loknu sem heimilislæknir og síðar yfirlæknir á heilsugæslunni í Vestmannaeyum.  Hann fluttist ásamt fjölskyldu sinni á Selfoss og hefur starfað þar síðan sem heimilislæknir og frá 2011 sem yfirlæknir Bráða- og slysamóttöku HSU á Selfossi eða frá stofnun hennar.

Á Suðurlandi eru nú fjórir svæðislæknar sóttvarna sem heyra undir Elínu Freyju Hauksdóttur umdæmislækni sóttvarna á Suðurlandi og yfirlækni á Höfn. Þeir eru auk Víðis, Björn G. S. Björnsson yfirlæknir í Rangárþingi, Davíð Egilsson yfirlæknir í Vestmannaeyjum og Ómar Ragnarsson yfirlæknir í Hveragerði og Þorlákshöfn.

Víði eru færðar hamingjuóskir með nýja titilinn.