Nýr sérfræðingur á HSU

Davíð Björn Þórisson sérfræðingur í bráðalækningum hefur verið ráðinn til starfa á Bráða- og slysamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurlands Selfossi og hefur hann nýlega hafið störf.

 

Davíð útskrifaðist úr Læknadeild HÍ 2004 og kláraði sérnám við háskólasjúkrahúsið í Lundi (Svíþjóð) árið 2012.  Hann hefur s.l. 15 ár starfað á bráðamóttöku, annars vegar á Landspítala og hins vegar á bráðamóttökunni í Lundi í Svíþjóð. Þá hefur hann leyst af víða í heilsugæslum og bráðamóttökum í Skandinavíu. Davíð er giftur Ástu S. Sigurbjörnsdóttur lögfræðingi og eiga þau saman þrjú börn.
Áhugasvið Davíðs í klíník snúa einkum að bráðaómskoðun, hágæslu („critical care“) og hermikennslu (endurlífgun og slysamóttöku/trauma). Hann hefur auk þess mikinn áhuga á tölvutækni og forritun og hafði á LSH nána aðkomu að þróun Heilsugáttar með forriturum HUT og þróaði þar ýmsar lausnir og innleiddi í starfsemi spítalans og straumlínulagaði á bráðamóttökunni til að einfalda störf starfsfólks og bæta flæði sjúklinga. Á bráðamóttökunni vann Davíð að ýmsum tæknitengdum gæðamálum og forritaði innanhúslausnir t.d. brada.is. Auk þess að starfa á HSU leiðir Davíð nú þróun nýrrar sjúkraskrárlausnar, Leviosa, og hlaut til þess 50 mkr. styrk Tækniþróunarsjóðs. Lausninni er ætlað að bylta skráningarvinnu heilbrigðisstarfsfólks með nútímalegri snjalltækni.

 

Það er mikið fagnaðarefni að fá Davíð til starfa á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og verður koma hans góð viðbót í að efla sérhæfða læknisþjónustu hjá HSU á Suðurlandi.

HSU býður hann hjartanlega velkominn til starfa og óskar honum velfarnaðar í störfum sínum hjá stofnuninni.