Nýr sérfræðilæknir á HSU Selfossi

Guðmundur Jóhannsson sérfræðingur í lyflækningum og bráðalækningum hefur hafið störf á lyflækningadeild og bráðamóttökunni Selfossi.

Guðmundur útskrifaðist úr læknadeild HÍ árið 2005 og hlaut almennt lækningaleyfi árið 2006 að loknu kandidatsári á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.  Þar starfaði Guðmundur áfram sem deildarlæknir á lyflækningadeild í tæpt ár þar til að hann hóf nám í lyf- og bráðalækningum við Háskólasjúkrahúsið í Lundi. 

Hann hlaut íslenska sérfræðiviðurkenningu í lyflækningum haustið 2012 og í bráðalækningum 2013. 

Haustið 2012 hóf Guðmundur störf sem sérfræðingur á bráðamóttöku LSH og starfaði þar með hléum þar til nú í  vor að hann lét af störfum og hóf störf sem sérfræðingur á lyflækningadeild HSU.

Guðmundur hefur samhliða námi og öðrum störfum reglulega unnið við afleysingar í heilsugæslu víðs vegar á landsbyggðinni en undanfarin 2 ár hefur hann unnið reglulega á heilsugæslunni í Rangárþingi.  Hann hefur einnig haft sérstakan áhuga á lífsstílssjúkdómum, efnaskiptum og offitu og var hann með reglulega móttöku fyrir einstaklinga með lífsstílssjúkdóma í Heilsuborg frá árinu 2019-2020, eða þar til starfssemi stöðvarinnar var lögð niður. Að auki hefur hann tekið þátt í skipulagningu ráðstefna og talað á málþingum um lífsstílstengd málefni.

Guðmundur er boðinn velkominn til starfa.