Nýr myndfundarbúnaður

Nýr fullkominn myndfundarbúnaður hefur verið tekinn í notkun á HSu. Hann er af gerðinni Polycom VSX 7000 og voru kaupin fjármögnuð úr gjafasjóði stofnunarinnar. Af þessu tilefni var haldinn fundur á HSu og Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í Heilbrigðisráðuneytinu ávarpaði fundinn gegnum fjarfundabúnað.Um samstarfsverkefni HSu og Landsbankans er að ræða en bankinn gaf LCD 40 tommu breiðtjaldsskjá, að verðmæti rúml. 200 þúsund krónur. Gjafaframlag þetta kemur sér afar vel fyrir starfsmenn og eflir tengingu innan og utan stofnunarinnar gagnvart fræðslu og fundum. Áður hafði stofnunin afnot af búnaði sem Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands á.
Á veturna er mikið fræðslustarf í gangi á HSu og eru að jafnaði 4 – 5 fræðslufundir í hverri viku sem starfsmenn HSu geta sótt. Fundirnir koma ýmist frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, Háskólanum á Akureyri hjúkrunarfræðiskor, Landspítala háskólasjúkrahúsi Barnaspítala, Læknaráði LSH og öldrunarteymi LSH.
Þá má geta þess að sl. vetur sótti starfsfólk á Hjúkrunarheimilinu á Kumbaravogi fræðslufundina um öldrunarmál og var það liður í endurmenntun starfsfólksins.
Búnaðurinn mun einnig nýtast stofnuninni til fundahalda stjórnenda og starfsmanna því nú er hægt að senda efni frá HSu sem ekki var mögulegt með eldri búnaðinum. Lengsta vegalengd milli starfsstöðva HSu er um 300 km. svo það mun sparast mikill tími og einnig verður um minni akstur að ræða. Á HSu starfa að jafnaði um 400 starfsmenn.
Viðstaddir afhendinguna voru m.a. Nína Pálsdóttir, útibússtjóri Landsbankans á Selfossi, stjórnendur og starfsmenn tæknisviðs HSu.
Þann 1. september nk. eru 2 ár frá stofnun HSu sem samanstendur af 8 heilsugæslustöðvum á Suðurlandi og Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi.