Nýr hjúkrunardeildarstjóri á hjúkrunardeildum HSU á Selfossi

Ólöf Árnadóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslu Rangárþings hefur verið ráðin í stöðu hjúkrunardeildarstjóra á hjúkrunardeildum HSU á Selfossi, Ljósheimum og Fossheimum.

Ólöf lauk námi í hjúkrunarfræði frá HÍ árið 2003 og meistaranámi í stjórnun í heilbrigðisþjónustu frá Háskólanum á Bifröst árið 2011. Þar lagði hún áherslu á straumlínustjórnun í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Ólöf hefur sótt fjölmörg námskeið á svið hjúkrunar og stjórnunar.

Ólöf hefur víðtæka starfsreynslu bæði innan lands og utan, í sjúkrahús-, hjúkrunar- og heilsugæsluþjónustu. Hún hefur starfað hjá HSU frá árinu 2008 og sem hjúkrunarstjóri heilsugæslu Rangárþings frá árinu 2010. Ólöf hefur sinnt félagstörfum m.a. fyrir Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Krabbameinsfélag Rangárþings og Ungmennafélagið Heklu

Ólöfu er óskað velfarnaðar í starfinu.

 

 

Guðlaug Einarsdóttir, fráfarandi hjúkrunardeildarstjóri, hefur verið ráðin í stöðu sérfræðings á heilbrigðissviði í Velferðarráðuneytinu. HSU þakkar Guðlaugu vel unnin störf og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.